Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur fylgist grannt með þróun gossins í Grímsvötnum og hvaða áhrif mögulegt öskufall gæti haft í borginni. Öskuskýið er nú á leið vestur yfir landið og sést nú þegar frá Reykjavík og allar líkur á að aska berist yfir höfuðborgarsvæðið í kvöld 22. maí og nótt. Veðurspá gerir hins vegar ráð fyrir norðlægum áttum á morgun og þá dregur úr mengun.

Heilbrigðiseftirlitið fylgist með loftgæðum í borginni og mun gefa út leiðbeiningar og viðvaranir til almennings um loftmengun eftir því sem þörf krefur. Engin ástæða er til sérstakra varúðarráðstafana í Reykjavík eins og staðan er á þessari stundu en þeir sem eru með viðkvæm öndunarfæri, astma eða lungnasjúkdóma ættu að vera innandyra ef svifryksgildi verða há. Fínasti hlutinn af öskunni er í formi svifryks en í Reykjavík eru þrjár mælistöðvar sem mæla svifryk og hægt er að fylgjast með niðurstöðum mælinga meðal annars á loftgæðatengli borgarinnar www.reykjavik.is.

Fylgst er með ástandinu í samráði við Umhverfisstofnun, Almannavarnir, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Sóttvarnarlækni.

Fyrra myndskeiðið sýnir öskubakkann nálgast Ingólfsfjall vestanvert. Síðara myndskeiðið er tekið úr Kömbum og sýnir hvar öskumistrið er komið yfir fjallið og nálgast Hveragerði.

Tenglar og nánari upplýsingar:
Loftgæðamælingar í Reykjavík: http://www.loft.rvk.is/
Loftgæði í Reykjavík: www.umhverfissvid.is (vefmælir)
Almannavarnir www.almannavarnir.is
Umhverfistofnun www.ust.is

Birt:
22. maí 2011
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Líkur á að aska berist yfir höfuðborgarsvæðið í kvöld“, Náttúran.is: 22. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/22/likur-ad-aska-berist-yfir-hofudborgarsvaedid-i-kvo/ [Skoðað:19. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: