Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur segir heilsufarsógn stafa af brennsteinsvetni frá jarðhitavirkjunum. Frummatsskýrsla vegna áætlaðrar vinnslu Orkuveitunnar við Gráuhnúka fær falleinkunn og er sögð illa unnin.

„Þeir tala um áhrif aukningar brennisteinsvetnis á virkjanasvæðinu en minnast lítið á höfuðborgarsvæðið þar sem meginþorri landsmanna býr,“ segir Árný Sigurðardóttir hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur um frummatsskýrslu vegna fyrirhugaðrar jarðhitavinnslu við Gráuhnúka í Bláfjöllum.

Orkuveitan hyggst nýta jarðhita frá Gráuhnúkum til að bæta 45 MW við gufuaflsvirkjun sína á Hellisheiði. Fyrirtækið Mannvit vann frummatsskýrslu vegna framkvæmdarinnar. Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gagnrýnir vinnubrögðin í skýrslunni harðlega og er þar í takti við Heilbrigðiseftirlit Hafnarfjarðar- og Kópavogssvæðis. Áhrif brennisteinsmengunar séu vanmetin og aðeins stuðst við spálíkön í stað þess að nota mælingar og rannsóknir sem þó liggi fyrir.

„Okkur finnst ákaflega óeðlilegt að í frummatsskýrslunni sé ekkert tekið á stærsta íbúasvæði landsins sem þó er ekki langt frá virkjuninni,“ segir Árný. Hún bendir á að samkvæmt mati heilbrigðiseftirlitsins geti vinnslan við Gráuhnúka aukið brennisteinsmagn í lofti um 40 prósent. Aukningin hefur þegar verið mæld um 140 prósent við Hvaleyrarholt frá því að Hellisheiðarvirkjun var tekin í notkun árið 2006.

„Í skýrslunni er ekkert minnst á veðurfar en hér eru austanáttir og þá leggur brennisteinslyktina yfir bæinn,“ útskýrir Árný sem kveður það ekki síst valda vonbrigðum að ekki sé minnst á niðurstöður nýlegra meistaraprófsrannsókna við Háskóla Íslands um áhrif loftmengunar á heilsufar. Niðurstöðurnar bendi til aukinnar notkunar astmalyfja og lyfja við hjartaöng í tengslum við aukna brennisteinsvetnismengun.

"Það er alveg vitað hver eitrunaráhrif brennisteinsvetnis eru en það þarf að rannsaka miklu betur áhrifin af lágum gildum brennisteinsvetnis á heilsufar fólks yfir lengri tíma," segir Árný og gagnrýnir enn fremur að allt vanti í skýrsluna um nauðsynlegar aðgerðir til að vinna gegn menguninni. „Orkuveitan er að vinna að tilraunum með hreinsibúnað en ekkert er vitað um árangur af honum. Það er til hreinsibúnaður sem hentar en hann er dýr og spurning hver viljinn er til að koma honum upp.“

Birt:
19. maí 2011
Höfundur:
gar
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
gar „Óttast áhrif brennisteinsgufu á heilsufar höfuðborgarbúa“, Náttúran.is: 19. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/19/ottast-ahrif-brennisteinsgufu-heilsufar-hofudborga/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: