Umhverfisráðherra hefur breytt reglugerð nr. 456/1994 um fuglaveiðar og nýtingu hlunninda af villtum fuglum á þann veg að stytta veiðitíma fimm tegunda svartfugla nú í vor. Veiðar á álku, langvíu, lunda, stuttnefju og teistu verða heimilar til 25. apríl í stað 10. maí nú í vor. Með styttingu veiðitímans nú er vonast til að dragi úr afföllum og álagi á stofna svartfugla á þeim tíma sem þeir nálgast land og fara að setjast upp í varpstöðvum.

Vegna hruns svartfuglastofna við Ísland óskaði  umhverfisráðherra eftir tillögum starfshóps um viðbrögð við ástandinu. Meirihluti hópsins lagði til að sett yrði fimm ára bann við veiðum á fimm tegundum svartfugla vegna fækkunar í stofnum þeirra og viðkomubrests á stórum hluta landsins. Minnihlutinn vildi ganga skemur varðandi aðgerðir til að draga úr veiðiálagi á svartfugla og hyggst ráðherra afla frekari ráðgjafar áður en ákvörðun er tekin um mögulegar  frekari aðgerðir.

Í skýrslunni koma auk þess fram tillögur m.a. um styttingu veiðitíma að hausti, stækkun verndarsvæða við fuglabjörg og bætta skráningu á sjódrukknuðum fuglum í netum. Ákveðið hefur verið að bæta vöktun allra svartfuglastofna á komandi árum og hefur umhverfisráðuneytið nú nýlega fengið tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands þar að lútandi. Ráðherra hefur að öðru leyti ekki tekið afstöðu til tillagna starfshópsins, en mun gera það tímanlega áður en veiðitímabil á að hefjast að nýju 1. september í haust. Starfshópurinn lagði loks til að ákvæðum um hlunnindaveiðar utan hefðbundins veiðitíma yrði breytt til að auka heimildir ráðherra til reglusetningar þar ef þörf krefði. Frumvarp þess efnis liggur nú fyrir Alþingi.

Ljósmynd: Lundi, Jóhann Óli Hilmarsson.

Birt:
13. apríl 2012
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Veiðitímabil á svartfuglum stytt í vor “, Náttúran.is: 13. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/13/veiditimabil-svartfuglum-stytt-i-vor/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: