Umferð skipa eykst vegna hlýnunar loftslags

Á ríkisstjórnarfundi á dögunum kynnti umhverfisráðherra tillögur að auknu samstarfi stofnana og ráðuneyta vegna vaxandi siglinga á Norðurslóðum. Að mati ráðuneytisins er þörf á auknu eftirliti með skipaumferð og viðbúnaði við hugsanlegri mengun vegna aukinna umsvifa og siglinga á Norðurslóðum. Vegna þessa hefur ráðuneytið tekið saman greinargerð um stöðu mála og hugsanlegar aðgerðir.

Þegar hefur bráðun hafíss á Norðurslóðum vegna hlýnandi loftslags leitt til aukinnar vinnslu olíu og annarra náttúruauðlinda á svæðinu og hefur umferð skipa aukist og fer að líkindum vaxandi. Ennfremur er útlit er fyrir að opnun nýrra, alþjóðlegra siglingaleiða á Norður-Íshafi gæti orðið fyrr en ella þar sem hafís á Norðurslóðum hefur hopað hraðar en búist var við.

Aukin mengunarhætta

Aukinni skipaumferð fylgja tækifæri en líka hættur sem nauðsynlegt er að vera viðbúin því að stór mengunarslys við Íslandsstrendur gætu valdið gríðarlegum skaða á umhverfi og efnahag landsins. Þetta kallar á aukinn viðbúnað við hugsanlegri mengun og öflugra eftirlit með skipaumferð, en hingað til hefur verið talið nauðsynlegt.

Tillaga um fjölþættar aðgerðir

Meðal aðgerða sem umhverfisráðuneytið leggur til eru að gerður verði samstarfssamningur um aðkomu Umhverfisstofnunar, Siglingastofnunar og Landhelgisgæslunnar að óhöppum á sjó; að reglugerð um viðbrögð við bráðamengun verði endurskoðuð; að haldnir verði reglulegir samráðsfundir helstu ráðuneyta og stofnana um málefnið; að gerð verði viðbragðsáætlun vegna óhappa skipa sem flytja kjarnorkuúrgang; að gert verði átak til að staðfesta veigamikla alþjóðlega samninga á þessu sviði og að kannaður verði fýsileiki þess að skilgreina fleiri siglingaleiðir hér við land til að beina umferð skipa með hættulegan farm fjær landi.

Þá hyggst ráðuneytið efla starf sitt innan Norðurskautsráðsins, sérstaklega hvað varðar vernd hafsins sem og innan Alþjóða siglingastofnunarinnar (IMO).

Grafík: Af marbef.org.

Birt:
13. maí 2011
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Aukið eftirlit með skipaumferð nauðsynlegt“, Náttúran.is: 13. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/13/aukid-eftirlit-med-skipaumferd-naudsynlegt/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: