Þann 12. janúar síðastliðinn óskaði umhverfisráðuneytið eftir því við Ríkisendurskoðun að hún gerði úttekt á forsendum, skilyrðum og eftirfylgni undanþágu frá tilskipun EB sem starfandi sorpbrennslur hérlendis fengu árið 2003. Ráðuneytið fagnar skýrslu Ríkisendurskoðunar um málið sem birt var í dag enda er hún þýðingarmikið innlegg í vaxandi umræðu um mengun hér á landi.

Í skýrslunni koma fram mikilvægar ábendingar til ráðuneytisins um það sem betur hefði mátt fara í eftirfylgni með mengunareftirliti Umhverfisstofnunar með starfsemi sorpbrennslustöðva, um nauðsyn þess að styðja við faglegt starf Umhverfisstofnunar, um stefnumörkun í úrgangsmálum og um eftirfylgni ráðuneytisins þegar kom að endurskoðun undanþágu sem Ísland fékk frá tilskipun EB um brennslu úrgangs árið 2003.

Fjölþætt viðbrögð

Ráðuneytið tekur þessar ábendingar alvarlega og hefur þegar óskað eftir upplýsingum frá Umhverfisstofnun um hvernig einstök fyrirtæki hafa uppfyllt starfsleyfisskilyrði sín fyrir mengandi starfsemi. Þá mun ráðuneytið fara með Umhverfisstofnun yfir þvingunarúrræði sem hún hefur í því skyni að styrkja framkvæmd mengunarvarnalöggjafarinnar og skoða leiðir til að styrkja lagagrunn eftirlitsins svo sem með upptöku stjórnvaldssekta vegna mengunarbrota.

Ráðuneytið lýsir ánægju með ítarlega aðgerðaráætlun sem Umhverfisstofnun hefur sett fram í því skyni að bregðast við ábendingum og athugsemdum Ríkisendurskoðunar. Þegar hefur stofnunin breytt verkferlum er varða þvingunarúrræði eins og nýlegt dæmi um boðaðar dagsektir sýnir. Ráðuneytið mun fylgjast með hertum aðgerðum Umhverfisstofnunar í framkvæmd mengunareftirlits á næstu misserum og jafnframt óska eftir auknu fjármagni á næstu fjárlögum til að vakta mengunarefni í umhverfinu.

Næstu skref

Í endurskoðaðri landsáætlun um meðhöndlun úrgangs mun ráðuneytið leggja áherslu á trausta framkvæmd úrgangsmála þannig að leikreglur verði skýrari og meðhöndlun úrgangs valdi sem minnstum óæskilegum áhrifum á umhverfi og heilsu, jafnframt því að draga úr myndun úrgangs og auka endurvinnslu hans. Í þessu sambandi má nefna að hafinn er undirbúningur í ráðuneytinu að endurskoðun laga og reglna um meðhöndlun úrgangs.

Fyrirhugaðar rannsóknir Umhverfisstofnunar á díoxínmengun í jarðvegi í nágrenni sorpbrennslustöðva og annarrar mengandi starfsemi sem fara fram nú í byrjun sumars eru mikilvægar til að varpa ljósi á útbreiðslu díoxínmengunar hér á landi. Þær niðurstöður munu móta frekari viðbrögð umhverfisráðuneytisins í framhaldinu.

Birt:
11. maí 2011
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun, Umhverfisráðuneytið „Umhverfisráðuneytið fagnar skýrslu Ríkisendurskoðunar og tilkynnir um bætt eftirlit og auknar heimildir “, Náttúran.is: 11. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/11/umhverfisraduneytid-fagnar-skyrslu-rikisendurskodu/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: