Hátíðaliljur í blóma vekja undrun
Hátíð ríkir um þessar mundir í Grasagarði Reykjavíkur í tilefni af hálfrar aldar starfsemi. Hátíðaliljur verða skoðaðar í fræðslugöngu kl. 17.00 fimmtudaginn 12. maí en tæplega hundrað yrki er þar að finna og langflest í blóma, það elsta frá 1620.
„Fjölbreytileiki hátíðalilja vekur flestum gestum Grasagarðsins undrun: fjöldinn, blómalitir og blómalögun,“ segir Hjörtur Þorbjörnsson forstöðumaður Grasagarðsins sem mun fræða gesti um liljurnar á fimmtudaginn. „Grasagarðurinn hefur lagt sig fram um að safna yrkjum sem hafa verið til sölu á Íslandi undanfarin tuttugu ár, “ segir hann.
Hátíðaliljur í gulum lit eru algengastar en þær geta einnig verið í hvítum lit, bleikum og appelsínugulum samsetningum, bæði einfaldar og fylltar. Í Grasagarðinum vaxa meðal annars páskaliljur og Jónsmessuliljur. Fræðslugangan hefst við aðalinnganginn og eru allir velkomnir.
Grasagarðurinn bauð upp á fuglaskoðun laugardaginn 7. maí í blíðviðri og var hún fjölsótt. Glókollurinn var svo ljúfur að sýna sig og vakti sérstaka aðdáun gesta.
Ljósmynd: Páskalilja í Grasagarðinum, Reykjavíkurborg.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „ Hátíðaliljur í blóma vekja undrun“, Náttúran.is: 11. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/11/hatidaliljur-i-bloma-vekja-undrun/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 26. maí 2011