Varið verður 42 milljónum til brýnna framkvæmda á friðlýstum svæðum nú í vor
Ríkisstjórn Íslands hefur samþykkt tillögu Svandísar Svavarsdóttur, umhverfisráðherra, um að veita 41,9 m kr. til brýnna framkvæmda nú í vor og sumar á friðlýstum svæðum sem jafnframt eru vinsælir viðkomustaðir ferðamanna.
Á síðastliðnu ári urðu miklar umræður um hnignandi ástand fjölmargra fjölsóttra ferðamannastaða. Umhverfisráðuneytið óskaði þá eftir sérstakri úttekt á þeim svæðum sem Umhverfisstofnun taldi að verst stæðu og þar sem brýnt væri að bregðast við með aðgerðum. Í skýrslu Umhverfisstofnunar er ástandi svæðanna lýst ásamt brýnustu aðgerðum til að viðhalda verndargildi þeirra og tryggja öryggi ferðamanna sem á svæðin koma. Í ljósi stóraukningar í fjölda ferðamanna var ákveðið að ráðast strax í aðgerðir á árinu 2011 til að sinna brýnustu verkefnum á rauðlistuðum svæðum. Fyrir fjárveitingu ríkisstjórnarinnar á þessu ári verður unnið að verkefnum við Gullfoss, Geysi í Haukadal, friðlandið í Dyrhólaey, Friðland að Fjallabaki, náttúruvættið á Hveravöllum og náttúruvættið í Surtarbrandsgili.
Ráðuneytið leggur höfuðáherslu á aðgerðir sem tryggja verndargildi og öryggi, en helstu verkefni sem unnið verður að á næstu mánuðum eru göngustígar, stikun gönguleiða, útsýnispallar, öryggisgirðingar, merkingar, fræðsluskilti, viðvörunarskilti, gróðurbætur og eftirlit. Framkvæmdirnar eru brýnni en ella vegna þess að spár gera ráð fyrir metfjölda ferðamanna á þessu ári, sem eykur álag á viðkomandi svæði og undirstrikar nauðsyn þess að búa vel að öryggi ferðamanna og tryggja góða aðkomu á vinsæl svæði.
Kannanir sýna að mikill meirihluti ferðamanna nefnir náttúru Íslands sem helstu ástæðu fyrir heimsókn sinni til landsins. Til að byggja Ísland upp sem áfangastað ferðamanna þarf að tryggja að náttúra landsins, helsta auðlindin sem ferðaþjónustan byggir á, glati ekki verndargildi sínu og aðdráttarafli. Það þarf að útbúa náttúruverndarsvæðin þannig að þau geti tekið við aukinni umferð ferðamanna og skapað atvinnutækifæri og tekjur á landsbyggðinni.
Ljósmynd: Frá Skaftafelli, ljósm. Árni Tryggvason.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Varið verður 42 milljónum til brýnna framkvæmda á friðlýstum svæðum nú í vor“, Náttúran.is: 3. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/03/varid-verdur-42-milljonum-til-brynna-framkvaemda-f/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. maí 2011