Fráleitt að björgunaráætlun vanti
Það er fráleitt að ekki skuli vera til björgunaráætlun fyrir hvítabirni hér á landi og endurspeglar ekkert annað en viljaleysi stjórnvalda, segir Húni Heiðar Hallsson, heimskautalögfræðingur. Hann segir stjórnvöld hafa fengið þrjár viðvaranir með komum hvítabjarna á síðustu tveimur árum þegar fjórða dýrið kom í gær og ekkert hafi verið gert. Dráp birnunnar í gær hafi verið bæði ólöglegt og óþarft.
Húni Heiðar skrifaði meistararitgerð um lagalega stöðu ísbjarna á Íslandi. Hann segir hvítabirni vera friðaða á Íslandi. Eina ástæðan sem réttlæti það í lögum að hvítabjörn sé felldur sé að yfirvofandi hætta sé á að hann kunni að valda skaða á búfé eða mönnum. „Það er eina ástæðan sem gefin er í lögum til þess að það megi fella þá. Ef það er ekki gert þá þurfi ráðherra tímabundið að fella niður friðun á hvítabjörnum, sem ég veit ekki hvort hafi verið gert í þessu tilfelli.“
Húni segir það einnig hafa verið ólöglegt að fella birnina á Skaga um árið en dráp þess sem kom í Þistilfjörðinn hafi verið réttlætanlegt. „Verkið í Þistilfirði var algjörlega bráðnauðsynlegt til að koma í veg fyrir að menn eða búfé bæru tjón af.“
Hann segir skammarlegt að björgunaráætlun sé ekki til. Það endurspegli fátt annað en viljaleysi stjórnvalda sem hafi haft nægan tíma frá því að síðasta atvik kom upp. „Ef hægt er að skjóta ísbjörn á 30-50 metra færi þá er hægt að deyfa hann á sama færi.“.
Birt:
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Fráleitt að björgunaráætlun vanti“, Náttúran.is: 3. maí 2011 URL: http://nature.is/d/2011/05/03// [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.