Veggöng á Vestfjörðum - Tillögur Landverndar
Landvernd hefur sett fram frumhugmyndir um úrbætur í samgöngum á Vestfjörðum. Með veggangavæðingu landshlutans má með varanlegum hætti bæta samgöngur á Vestfjörðum. Með veggöngum má komast hjá þeirri áníðslu á umhverfi, landslag og náttúru sem gjarnan fylgir því að þvera firði og krækja vegum út fyrir nes og tanga. Hér er á ferðinni hugmyndasmíð til nánari athugunar og til þess að opna umræðu um varanlega lausn á raunverulegum vanda.
Hér að neðan er farið yfir viðfangsefnin og leiðir til lausna en greinargerð um veggangavæðingu vestfjarða í fullri lengd er að finna í pdf skjali hér.
Viðfangsefnin:
Úrbætur í vegamálum felast því einkum í þremur atriðum, fyrir utan vandaða vegi og helst klædda, sem rísa vel upp úr snjó:
1. Færa þá sem víðast af hinum hærri hálsum og heiðum og niður á lægra, snjóléttara og vindhægara land.
2. Færa þá sem víðast undan háum og bröttum snjóflóða-, grjóthruns- og aurskriðuhlíðum (háskahlíðum).
3. Stytta vegina eftir föngum.
Allt kostar þetta fé, en það verður að meta á móti ferðatöfum, umferðarháska, of löngum ferðatíma, of mikilli eldsneytiseyðslu og öðru óhagræði.
Leiðir til lausna:
Tvenns konar aðgerðaleiðir hefur mest verið rætt um til bóta á vegakerfinu:
1. Byggja vegina sem mest upp á því undirlendi og undirlendisræmum, sem til er, og jafnvel þvera mynni útgrunnra fjarða í því skyni.
2. Leggja vegina sem mest í veggöng milli fjarða og dalabotna og þar með undir hálsa og heiðar og framhjá háskahlíðum.
Fyrri leiðin leysir aðeins fyrsta viðgangsefnið af þeim þremur sem nefnd eru hér að framan. Þetta er þó sú leið sem Vegagerðin hefur víða valið og telur hana vera til muna ódýrari. Miklu meira sýnilegt rask á landi fylgir yfirleitt þessari aðgerðaleið, auk þess sem skaði getur orðið á lífríki, í skógum og þveruðum fjörðum og víðar, sem ekki hefur tíðkast að taka með í reikninginn. Síðari leiðin leysir að öðru jöfnu vandamál þau, sem felast í öllum þremur atriðunum. Göng eru lögð undir hálsa og heiðar, sneitt er víða hjá háskahlíðum og vegakerfið í heild stytt til muna. Líklegast er þó, að blanda verði saman báðum tegundum aðgerðaleiða, eftir aðstæðum og efnum.
Landvernd leggur áherslu á veggangaleiðina, hvar sem henni verður við komið með skynsamlegu móti. Veggangavæðing leysir viðfangsefnin þrjú sem takast þarf á við. Það efni sem tekið verður úr veggöngunum, mun væntanlega nýtast að verulegu leyti sem undirburðarlag í nálæga vegi, en víða þarft að lyfta vegum á Vestfjörðum vel upp vegna snjóalaga.
Vegagerðin er í áætlunum sínum nauðbeygð undir nískuhnefa fjárveitingavaldsins, og er þá að auki horft fram hjá umhverfiskostnaði og ýmsum öðrum afleiddum stærðum. Vandi Vestfirðinga á fjölmörgum sviðum, s.s. atvinnurekstur, skólamál og margt fleira, verður ekki leystur, nema með stórbættum og öruggum vegasamgöngum.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Veggöng á Vestfjörðum - Tillögur Landverndar“, Náttúran.is: 21. október 2007 URL: http://nature.is/d/2007/10/21/veggng-vestfjrum-tillgur-landverndar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.