Í Kastljósi í kvöld komu fram upplýsingar um mælingar sem sýna fram á mikla mengun frá álþynnuverksmiðju Becromal við Krossanes við Eyjafjörð. Um er að ræða basískan úrgang sem nær nánast að verða hreinn vítissódi eða með pH gildi yfir 11. Þessi mengun er ekki stöðug en nær þessum styrk nokkrum sinnum á sólarhring. Mengun af þessu tagi er verulega skaðleg lifríki og bráðdrepandi þar sem hún er sterkust. Friðlýstar náttúruminjar, hverastrýtur, eru einnig á botni fjarðarins í nágrenni verksmiðjunnar. Talsmenn fyrirtækisins vörðust fimlega og forstjóri Umhverfisstofnunar virtist ekki geta skýrt hvernig fyrirtækinu hefði liðist að fara langt yfir þau undanþágumörk sem getið er í starfsleyfi eða pH 7,5. Þetta ástand virðist hafa verið frá upphafi rekstrar eða í um tveggja ára skeið.

Mæligilidð 11+ er mjög hátt þar sem pH skalinn er ekki línulegur heldur hækkar gildið tífalt um hverja heila tölu. Það þýðir að basi gildið 11,5 er 1.000 til 10.000 sinnum yfir mörkum sem þó eru undanþága frá almennum viðmiðum. Fáar eftirlitsferðir Umhverfisstofnunar vour tilkynntar bréflega með fyrirvara.

Umhverfisverndarsinnar vöktu athygli á þeirri hættu sem stafaði af þessari framleiðslu og Umhverfisstofnun var hún líka vel ljós þegar þar var gefin út undanþága til aukinnar mengunar. Það má því sæta furðu að verksmiðjan skuli ekki svift starfsleyfi þegar í stað þar til úrbætur hafa átt sér stað.

Það er ljóst að velvilji og traust yfirvalda í garð fyrirtækja af þessu tagi er ekki á traustum grunni og því verður að gera þá kröfu að Umhverfisstofnun sinni óháðu, ótilkynntu eftirliti eða fái til þess aðra óháða aðila. Þessir „gullmolar“ íslensks atvinnulífs hljóta að vera aflögufærir með þann kostað sem af slíku eftirliti hlýst.

Ljósmynd: Becromal verksmiðjan, af vef Viðskiptablaðsins.

Birt:
24. mars 2011
Höfundur:
Einar Bergmundur
Tilvitnun:
Einar Bergmundur „Mikil mengun frá verksmiðju Becromal á Krossanesi við Eyjafjörð“, Náttúran.is: 24. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/24/mikil-mengun-fra-verksmidju-becromal-krossanesi-vi/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. apríl 2011

Skilaboð: