Matsskýrsla um sjálfbærni þorsk-, ýsu- og steinbítsveiða við Ísland birt til umsagnar
Vottunarstofan Tún hefur tilkynnt birtingu skýrslu um mat á sjálfbærni þorsk-, ýsu- og steinbítsveiða við Íslandsstrendur. Um er að ræða mat á nokkrum fiskveiðiútgerðum undir forystu fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks sjávarafurða. Útgerðarfyrirtækin gera út á handfæri, línu og dragnót, einkum við vestan- og norðanvert landið. Matið fer fram samkvæmt vottunarreglum Marine Stewardship Council (MSC), en þær byggjast m.a. á viðmiðunarreglum FAO um ábyrgar fiskveiðar.
Sæmark sjávarafurðir eru fyrsta íslenska fyrirtækið sem fer í gegnum slíkt mat (sjá frétt). Matsskýrslan, sem unnin er af sérfræðinefnd Vottunarstofunnar Túns, liggur nú frammi á heimasíðu MSC (sjá skýrsluna hér) og gefst þeim sem telja sig eiga hagsmuna að gæta tækifæri til að bera fram athugasemdir, fyrirspurnir og tillögur um efni skýrslunnar fram til 22. apríl n.k.
Ljósmynd: Þorskflök, af vef vsv.
Birt:
Tilvitnun:
Gunnar Á. Gunnarsson „Matsskýrsla um sjálfbærni þorsk-, ýsu- og steinbítsveiða við Ísland birt til umsagnar“, Náttúran.is: 20. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/20/matsskyrsla-um-sjalfbaerni-thorsk-ysu-og-steinbits/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.