Ef þetta er rjóminn, hvernig er þá undanrennan?
Þrjátíu og sjö vísindamenn eru nú orðnir leikarar á sviði lögjafarvaldsins. Það urðu þeir þegar þeir sendu Alþingi bréf, þar sem þeir kvörtuðu yfir því, að átta þingmenn hefðu lagt fram tillögu til þingsályktunar um breytingar á lögum og reglugerðum um útiræktun á erfðabreyttum lífverum, nokkuð sem myndi þá setja vísindunum skorður með því að auka eftirlit með ræktun erfðabreyttra lífvera.
Margur er vissulega sá völlur, sem trúðar og leikarar kasta útsæði sínu á þessa dagana, og ekki að sjá, að þrjátíu og sjö vísindamenn séu neitt frábrugðnir öðrum í þeim hópi. Þetta verður ljóst þegar við opnum bréfið frá þeim og lesum hvað þar stendur.
Í bréfinu stendur fyrst, að vísindamennirnir þrjátíu og sjö mótmæli því eindregið „að tillaga þessi verði samþykkt af Alþingi Íslendinga", og lýsa því yfir að hún sé með öllu óþörf og „engin ástæða ... til að banna útiræktun erfðabreyttra lífvera þegar engin hætta er talin stafa af slíkri ræktun". Ekki er nefnt hér hver það sé, sem telur ræktunina vera áhættulausa, en að því er næst verður komist þá eru það vísindamennirnir þrjátíu og sjö sjálfir.
Þessu næst lýsa vísindamennirnir því yfir, að það sé „áhyggjuefni að greinargerðin með tillögunni virðist bæði vera illa unnin og að mestu leyti röng. Höfundar hennar virðast hafa mjög takmarkaðan skilning á líffræði, þróunarfræði, erfðafræði eða eðli erfðabreyttra lífvera. Í þingsályktunartillögunni er hugtökum ruglað saman auk þess sem hún styðst við álit einstaklinga sem ekki verður séð að hafi neina faglega þekkingu á því sviði sem tillagan fjallar um". Þetta eru mjög alvarlegar ásakanir, og sjá má síðar í bréfinu hvernig vísindamennirnir úfæra þær.
Þar fyrir neðan standa nöfn og titlar allra vísindamannanna. Rammi hópsins er myndaður af Eiríki Steingrímssyni, Phd., rannsóknarprófessor við læknadeild Háskóla Íslands, talsmanni vísindamannanna og fyrsta nafn á listanum, og Kára Stefánssyni, fyrrv. prófessor við Harvardháskóla og forstjóra Íslenskrar erfðagreiningar, stærsta líftæknifyrirtækis í sögu Íslands, sem er síðast á listanum. Hér er því kominn rjóminn ofan af gnógtarkeraldi íslenskra líftæknivísinda.
Fremur en að fara að gauka í þingsályktunartillöguna, sem þingmennirnir átta lögðu fram (þskj. 737), skulum við nú líta á athugasemdir vísindamannanna þrjátíu og sjö og rök þeirra gegn tillögunni. Fyrst kemur orðrétt tilvitnun í kafla 2 í frumvarpinu: „Setningin „Óvissan er hins vegar mikil því enn er til að mynda að miklu leyti óljóst hvernig tengslum gena innbyrðis og við efnafræðilegt umhverfi þeirra er háttað." er með öllu óskiljanleg". Setningin er kannski of flókin fyrir vísindamennina, en ekki er hægt að sjá, að hún sé málfræðilega eða rökfræðilega röng á nokkurn hátt.
Nokkrum línum neðar stendur: „Erfðatæknin er hvorki ónákvæm né ómarkviss", og svo „Það er hins vegar rétt að þegar erfðabreytt gen fara inn í erfðamengi lífverunnar þá er yfirleitt ekki hægt að stjórna því hvar genið lendir eða í hve mörgum eintökum". Ekki er hægt að fullyrða, að þetta sé beint rökleysa, þar sem þetta er auðsjáanlega hin rammasta þversögn. Eru vísindamennirnir að gera grín að okkur lesendum, eða ... ? Maður finnur ósköp lítið rjómabragð þegar maður tekur sér þetta í munn.
Svipað bragð er af rökleiðslunni í næstu setningu: „þetta hefur ... engar alvarlegar afleiðingar fyrir umhverfið. Ef aðkomuerfðaefni fer inn í gen sem er lífverunni nauðsynlegt, þá er viðkomandi erfðabreytt lífvera ekki lífvænleg". Þetta verður að skiljast svo, að erfðabreyttar lífverur séu geldar, en það sé ekki alvarlegt. Síðan stendur: „Líkur á að erfðabreytingar erfist til næstu kynslóðar minnka með neikvæðum áhrifum þeirra á tímgun og starfsemi lífverunnar", þ.e.a.s. erfðabreyttar lífverur eru ekki geldar, nema erfðabreytingin sé skaðleg fyrir tímgun þeirra. Sem sagt, vísindamenn geta staðhæft hvaða vileysu sem er, sérstaklega ef þeir eru þrjátíu og sjö og staðhæfingin hefur ekki neikvæð áhrif á starfsemi þeirra.
Næst í bréfi vísindamannanna kemur gagnrýni á kafla 3 í tillögunni, þar sem þeir vara við alhæfingum. Þeir ljúka rökfærslu sinni með því að fullyrða, að „Þótt lauf eða stilkar erfðabreyttrar plöntu dreifist er engin sérstök hætta á að það verði til þess að erfðabreytingin dreifist um vistkerfið". Hvað þá um frjóefni eða fræ slíkra plantna, sem hljóta að vera frjó, þar sem erfðabreytingin var ekki skaðleg fyrir plöntuna sjálfa og hún því greinilega lífvænleg, samkv. fyrri rökum vísindamannanna? Geta slík fræ ekki vaxið í íslenskri mold, og getur lífvænlegt, erfðabreytt bygg ekki tímgað sig við ómengað, íslenskt bygg?
Í gagnrýni sinni á kafla 4 í frumvarpinu kemur fram, að vísindamennirnir þrjátíu og sjö eru fyllilega sammála „þeirri niðurstöðu ORF líftækni að „engin vísindaleg rök hníga að því að kanna þurfi sérstaklega áhrif mögulegrar neyslu slíkra próteina á dýr og menn enda eru þau ekki ætluð til manneldis" ". Þessa fullyrðingu verður að taka sem svo, að áhrif þannig neyslu hafi ekki verið könnuð, en að vísindamennirnir telji slíkt ekki nauðsynlegt. Á hverju byggja vísindamennirnir þá ályktun sína? Þeir gefa ekki upp neinar tilvitnanir og nefna engar sérstakar niðurstöður, sem styðja ályktanir þeirra. Allt byggir á fullyrðingum, sem ætlast er til að lesandinn taki góðar og gildar vegna þess að þær koma frá þrjátíu og sjö vísindamönnum. Sem slíkir eiga þeir að vita, að þannig fer ekki vísindaleg rökleiðsla fram. Þvi hlýtur niðurstaða þeirra sjálfra, að „niðurstaða kafla 4 um rökin gegn útiræktun og veikburða svör við þeim [sé] röng", sjálf að vera veikburða og röng. Það hefur greinilega slest mykja í rjómann.
Valdimar Briem, dr. phil.
Ljósmynd. Útiræktun á erfðabreyttu bygg í Gunnarsholti, ljósm. Hákon Már Oddsson.
Birt:
Tilvitnun:
Valdimar Briem, dr. phil. „Ef þetta er rjóminn, hvernig er þá undanrennan?“, Náttúran.is: 14. mars 2011 URL: http://nature.is/d/2011/03/14/ef-thetta-er-rjominn-hvernig-er-tha-undanrennan/ [Skoðað:22. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 15. mars 2011