Lífræn heilsuvöruframleiðsla á Íslandi - Jurtaapótek Kolbrúnar grasalæknir ehf.fær vottun.

Jurtaapótek Kolbrúnar grasalæknis ehf. á Laugavegi 2 í Reykjavík fær í dag vottun Vottunarstofunnar Túns til vinnslu, pökkunar og sölu afurða úr jurtum og jurtaolíum samkvæmt alþjóðlegum reglum um lífrænar aðferðir.

Vottunin nær til vinnslu á lífrænum lækningajurtum, te- og kryddjurtum, jurtaolíum, og öðrum heilsu- og snyrtivörum. Vottorð þessu til staðfestingar verður afhent í Reykjavík í dag, sunnudaginn 26. ágúst 2007.

Vottunin undirstrikar aukinn áhuga á nýtingu hreinna og ómengaðra jurta til bættrar heilsu, náttúrulegrar meðferðar við ýmsum kvillum, svo og mataræðis og umhirðu eigin líkama, sem eflir ónæmiskerfi og fyrirbyggir sjúkdóma.

Með vottun Túns er staðfest að uppruni og framleiðsla hinna vottuðu jurta og jurtaolía uppfylla alþjóðlegar kröfur um sjálfbæra landnýtingu, söfnun jurta og vinnslu þeirra.Þess hefur verið gætt að afla hráefna af svæðum sem eru fjarri hvers konar mengandi starfsemi og að söfnun jurta valdi ekki röskun á vistkerfi viðkomandi svæða.

Vottunin staðfestir að fyrirtækið vinnur eftir alþjóðlegum stöðlum um úrvinnslu, pökkun, skráningu og merkingar lífrænna afurða. Við meðferð hinna lífrænu jurta og jurtaolía er leitast við að varðveita næringar- og lækningagildi þeirra og tryggja að hráefnin blandist ekki öðrum efnum.

Jurtaapótek Kolbrúnar grasalæknis ehf. bætist nú í hóp nokkurra íslenskra aðila sem hafa fengið vottun Túns til úrvinnslu á lífrænum jurtum og jurtaolíum. Jurtaapótekið hefur jafnframt þá sérstöðu að sameina vinnslu og verslun með jurtir og jurtaolíur, einkaráðgjöf við almenna neytendur, og fræðslustarfsemi á þessu sviði.

Þróun lífrænnar framleiðslu – Vottun í 11 ár
Á undanförnum misserum hefur orðið vart við aukinn áhuga á söfnun og nýtingu villtra plantna til úrvinnslu á margvíslegum heilsu- og snyrtivörum. Sprottið hafa upp fyrirtæki í flestum landsfjórðungum sem framleiða slíkar vörur með lífrænum aðferðum og hafa fengið til þess vottun.

Lífrænar afurðir hafa þá sérstöðu á markaði að allur ferill þeirra, frá ræktun eða söfnun, til pökkunar í neytendaumbúðir, er undir eftirliti óháðs aðila, þ.e. vottunarstofu sem fylgist með því að uppruni og meðferð afurðanna sé í samræmi við alþjóðlegar kröfur um lífræna framleiðslu.

Þess má geta að í dag, 26. ágúst 2007, eru 11 ár síðan Vottunarstofan Tún hóf vottun lífrænna afurða á Íslandi. Síðan þá hafa yfir 60 aðilar – bændur og fyrirtæki – hlotið vottun og er Jurtaapótek Kolbrúnar grasalæknis ehf. hið 63. í röðinni.
Nánari upplýsingar um vottun lífrænna afurða:

Sjá nánar um Vottunarstofuna Tún.

Efsta myndin er af Kolbrúnu grasalækni að kynna jurtaafurðir sínar á sýningu Fósturlandsins Freyja í Ráðhúsinu í ágúst 2005. Miðmyndin er af nokkrum vörum hennar við sama tækifæri. Ljósmyndir: Guðrúrn Tryggvadóttir.
Neðst t.h. er merki Vottunarstofunnar Túns um lífræna ræktun.

Birt:
26. ágúst 2007
Höfundur:
Vottunarstofan Tún
Tilvitnun:
Vottunarstofan Tún „Jurtaapótek fær lífræna vottun“, Náttúran.is: 26. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/26/jurtaaptek-fr-lfrna-vottun/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 16. janúar 2008

Skilaboð: