Stærsta prentsmiðja landsins hefur fengið vottun norræna umhverfismerkisins Svansins. Prentsmiðjan Oddi hefur náð þeim árangri að standast kröfur Svansins. Það tryggir að fyrirtækið er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa.

„Það er mikið gleðiefni að stærsta prentsmiðja landsins sé nú formlega Svansmerkt og taki þannig þátt í því að byggja upp sjálfbært samfélag. Ég vil óska Odda til hamingju með þennan merka áfanga. Hér greini ég jákvæðar afleiðingar vistvænnar innkaupastefnu ríkisins í verki, en áhugi á umhverfisvottun hefur aukist mjög frá því að ríkisstjórnin samþykkti stefnu um vistvæn innkaup í mars síðastliðnum. Oddi er annað fyrirtækið sem ég veiti Svansvottun á stuttum tíma og vona ég að þeim fjölgi jafnt og þétt á þessu ári" segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.

„Við hjá Odda leggjum mikið upp úr því að okkar vörur séu framleiddar í sátt við umhverfið og er Svansvottunin einn áfangi af mörgum til að svo geti orðið. Umhverfisvottun Svansins er stór þáttur í að tryggja það að Oddi verði áfram í fararbroddi í íslenskum prentiðnaði hvað umhverfismál varðar" segir Jón Ómar Erlingsson framkvæmdastjóri Odda.

Sjá nánar í frétt á vef Umhverfisstofnunar.

Birt:
18. janúar 2010
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Prentsmiðjan Oddi fær Svansvottun“, Náttúran.is: 18. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/18/prentsmidjan-oddi-faer-svansvottun/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: