Nú þegar að nokkuð ljóst er að við kusum ekki yfir okkur græna stjórn þarf að herða baráttuna fyrir grænni framtíð á annan hátt en í gegnum stjórnmálamennina. Eitt það sem að við getum gert er að lifa vistvænu og ábyrgu lífi dags daglega og að vera vakandi fyrir því sem fram fer í samfélagin og taka þátt í lýðræðislegri mótun þess, sem almennir borgarar.

Það mál sem brennur hvað mest á undirritaðri um þessar mundir er margumræddur, nú þegar á teikniborðinu, en þó illa kynntur, „álgarður“ í Þorlákshöfn. Greinilegt er að reyna á að vinna málið það vel og ítarlega að ekki verði aftur snúið, gömul og góð aðferð, sem er þó ekki mjög lýðræðisleg í sjálfu sér. Tengingin ál og garður er sérkennileg blanda en það er einlæg trú nokkurra stuðningsmanna álvershugmyndarinnar að hér yrði um sérstakleg grænt og vænt fyrirtæki að ræða og „hátækni“ þetta og hitt virkar vel í eyrum landans. Þess vegna er fyrirhugað álver ekki kynnt sem álver heldur álgarður. Þeir sem kjósa yfir sig álgarð ættu að kynna sér málin vel áður en kinkað er kolli í takt við ríkjandi kink.

Þann 17.04.2007 var haldinn kynningarfundur í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn sem að undirrituð missti af vegna anna við að koma þessum vef í loftið. Eftir þennan umrædda kynningarfund stóðu margir með fleiri spurningar en svör.
Eitt af því sem að furðu sætir er að álgarðinum á að planta inn á tvö vatnsverndarsvæði Þorlákshafnar.

Rætt er um að álverið verði sérstaklega hátæknilegt og taki yfir fullvinnslu sem ekkert álver annað hefur farið út í hér á landi. Fullvinnsla á áli er mjög kostnaðarsöm.

Neikvæðir þættir þessarar áætlunar út frá umhverfissjónarmiðum eru berlega:

  • Byggt að hluta á vatnsverndarsvæðum Þorlákshafnar.
  • Orkan kæmi víðar að en frá Hengilssvæðinut t.d. úr neðri hluta Þjórsár.
  • Kemur í veg fyrir frekari atvinnuþróun í vistvænni greinum, landbúnaði, ferðaþjónustu, vatnsútflutningi og fleira.
  • Útilokar Suðurland frá því að verða vistvænt eða vottað svæði.

Og að lokum „hvaðan á vinnuaflið að koma“ og er þetta virkilega sú framtíð sem að við óskum okkur?

Sjá einnig grein eftir Sigurlaugu Gröndal sem birtist í Víkurfréttum þ. 11.05.2007 .

Myndin er af steinum í brimgarðinum í Þorlákshöfn. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
14. maí 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Álgarður af og frá - Kálgarður já“, Náttúran.is: 14. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/14/lgarur-af-og-fr-klgarur-j/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: