Bjargey Ólafsdóttir myndlistarmaður teiknaði fjögur þúsund fermetra stóran ísbjörn á Langjökul á föstudag.

"Þetta gekk lygilega vel," segir Bjargey um ísbjörninn stóra á Langjökli. Verkið var hluti af alþjóðlega verkefninu  350 Earth, þar sem listamenn á sautján stöðum víðs vegar um heim bjuggu til gríðarstór listaverk sem teknar voru loftmyndir af. Tilefnið var loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna sem hófst í Mexíkó í gær.

Bjargey var mætt á Langjökul klukkan að ganga tíu á föstudagsmorgun ásamt níu manna föruneyti, sem aðstoðaði hana við að teikna myndina af birninum. Að auki voru þrír um borð í þyrlunni sem myndirnar voru teknar úr. "Lykillinn af því hvað þetta gekk vel var að valinn maður var í hverju rúmi, eins og í öllum farsælum verkefnum." Bjargey segir mestan tíma hafa farið í undirbúninginn, að setja upp punktanet og strengja kílómetra af snæri á milli til að mála eftir. "Við vorum í sjálfu sér fljót að mála björninn, það tók ekki nema um tvær klukkustundir." Hún segir það hafa verið magnaða upplifun að svífa upp með þyrlunni og berja björninn augum. "Maður sá auðvitað ekkert þarna niðri annað en línur á milli staura. Það var því alveg dásamlegt að fljúga þarna upp og sjá hvað þetta heppnaðist frábærlega."

Bjargey segir verkefnið hafa verið krefjandi og lærdómsríkt. "Bestu verkin eru þau sem maður lærir mest af og það sem gefur þessu starfi gildi. Þetta er hluti af því að lifa lífinu lifandi og halda manni alltaf á tánum."

Finna má myndir af hinum loftverkunum á heimasíðu verkefnisins, www.350.org - þar á meðal verk Thom Yorke, söngvara Radiohead, sem sett var upp í Brighton á laugardag.bergsteinn.

Ljósmynd af sikunews.com.

Birt:
30. nóvember 2010
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Björninn unninn á Langjökli“, Náttúran.is: 30. nóvember 2010 URL: http://nature.is/d/2010/11/30/bjorninn-unnin-langjokli/ [Skoðað:15. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: