Í nýrri skýrslu OECD um Ísland er að finna sterk varnaðarorð um að ekki verði ráðist í frekari stóriðjuframkvæmdir fyrr en jafnvægi hefur verið náð í efnahag landsins. Jafnframt draga sérfræðingar OECD sterklega í efa að uppbygging virkjana til stóriðju sé arðbær. Orðrétt segir:

Ákvarðanir um fjárfestingaverkefni ráða úrslitum

Stór fjárfestingaverkefni tengd áliðnaði þarf að taka með í reikninginn, bæði þegar litið er til stöðugleika og hagsældar til lengri tíma. Slík verkefni skýra núverandi ójafnvægi að hluta og hætta er á því, að ný verkefni hefjist áður en efnahagslegur stöðugleiki hefur náðst. Ný ríkisstjórn hefur lofað að tímasetja slík verkefni með þeim hætti að stutt verði við efnahagslegan stöðugleika. Hún hefur jafnframt lýst yfir því, að vinna við ný verkefni hefjist ekki fyrr en rammaáætlun um nýtingu orku til framtíðar hafi verið lokið. Þessi stöðvun tekur þó ekki til verkefna sem rannsóknarleyfi eða önnur leyfi hafa þegar fengist fyrir og á aðeins við ef um „ósnortið land“ er að ræða. Jákvæð afstaða Skipulagsstofnunar ríkisins bendir til þess að vinna við eitt hinna fyrirhuguðu verkefna (sem felur í sér fjárfestingu sem nemur 10% af þjóðarframleiðslu) kunni að hefjast fljótlega. Tímasetningu nýrra stórverkefna ætti, að því marki sem mögulegt er, að haga þannig að þau hefjist eftir að núverandi ójafnvægi í efnahagslífi hefur verið leiðrétt. Almennt gildir um stórar opinberar fjárfestingar af þessum toga, að þær eru í eðli sínu áhættusamar og jafnvel þótt þær líti út fyrir að vera hagkvæmar hafa þær í för með sér umtalsverðar óbeinar skuldbindingar fyrir ríkisvaldið. Skortur á gagnsæi veldur því að ómögulegt er að meta hvort opinber orkufyrirtæki skila nægilegri arðsemi til að réttlæta nýtingu náttúruauðlinda, umhverfisfórnir og þá áhættu sem stóriðjuverkefnunum fylgir. Forðast ætti allar fjárfestingar í orkufrekum verkefnum, þar með töldum þeim sem nú eru í undirbúningi, nema áður hafi verið lagt á þau mat á grunni kostnaðar-ábatagreiningar sem bæði er gagnsæ og skiljanleg (og felur í sér mat á umhverfisáhrifum og áhrifum á komandi kynslóðir)."*

Þessi varnaðarorð hunsaði forsætisráðherra með yfirlýsingu á Alþingi í gær um að framkvæmdir á borð við nýtt álver geti haft haft heilmikil áhrif til að auka hagvöxt. Yfirlýsingin felur í sér að eðlilegt sé nýta slíkar stórframkvæmdir til að ýta undir þenslu á tímum ójafnvægis í hagkerfinu. Þvert á ráðleggingar OECD sem leggur til að að það verði ekki gert fyrr en efnahagslífið hefur náð jafnvægi á ný .

*OECD Economic Surveys, Iceland, bls. 13
.
Birt:
5. mars 2008
Höfundur:
Árni Finnsson
Tilvitnun:
Árni Finnsson „Forsætisráðherra hunsar varnaðarorð OECD“, Náttúran.is: 5. mars 2008 URL: http://nature.is/d/2008/03/05/forsaetisraoherra-hunsar-varnaoaroro-oecd/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: