Rannsóknarstofnun fiskiðnaðarins boðaði til fundar í tilefni 40 ára starfsafmælis síns þann 23.09.2005. Erindi voru m.a. flutt um „neytendur og viðhorf til fiskneyslu“ sem Emelía Martinsdóttir, RF flutti. Erindið „Lýsi er hollt“ var flutt af Katrínu Pétursdóttur hjá Lýsi hf. Fyrirlestur hennar var einstaklega áhugaverður og rökstuðningur hennar um heilnæmi lýsis byggður á rannsóknum bæði innlendum og erlendum. Auk þess nefndi Katrín að lýsi hafi verið viðurkennt sem náttúrulyf löngu fyrir tíma vísindalegra rannsókna og hafi auk inntöku m.a. verið notað við húðvandamálum auk þess að vinna á bólgum. Guðbjörg Glóð Logadóttir stofnandi Fylgifiska sagði frá sínu fyrirtæki og hvernig hún tókst á við það að koma á fót nútíma fiskverslun í Reykjavík.

Áhugaverð var einnig kynning Margrétar Geirsdóttur á „ Sæbjúgum“ (Saponin) og sú rannsóknarstarfsemi sem fram fer í kringum bæði veiðar, framleiðslu og markaðssetningu í Kína. Fyrirtækið RG Reykofnar Grundarfirði ehf. stendur fyrir veiðum og þróun í samstarfi við AVS (rannsóknarsjóður innan Rannís sem stendur fyrir að auka verðmæti sjávarfangs) sem styrkir verkefnið. Sæbjúgu eru eftirsótt heilsufæði í Kína og rannsóknir RF hafa staðfest að íslensku sæbjúgun séu ein af þeim heilnæmustu sem fyrirfinnast í heiminum.

Í opnunarerindi Árna M. Mathiesen sjávarútvegsráðherra kom fram að „náttúruleg og lífræn matvæli“ er það sem markaðurinn krefst í dag. Því er nauðsynlegt að geta rakið uppruna vörunnar og fylgja eftir gæðastöðlum frá veiði til smásöludreifingar. „Sjálfbærar veiðar“ eru einnig hugtak sem nokkrum sinnum var nefnt. Ráðherra nefndi einnig að stjórnarskrárnefnd hafi nú það verkefni að flétta inn í nýja stjórnarskrá ákvæði þess efnis að „auðlyndir lands og sjávar séu sameign þjóðarinnar“ sem gæti haft afgerandi afleiðingar fyrir nýtingu náttúruauðlinda okkar í framtíðinni. Er þá ekki einungis um sjávarfang að ræða heldur einnig vatnsafl og hverjar þær aðrar auðlindir sem teljast „framlag náttúrunnar“ og ekki er bundið eignarrétti í formi landeigna o.þ.h. Þetta eru aðeins fáein dæmi um þær góðu kynningar sem fluttar voru á afmælishátíðinni og hvet ég sem flesta til að kíkja inn á vef RF og skoða glærurnar en þær ættu að vera komnar inn á vefinn.

Birt:
23. september 2005
Uppruni:
Lýsi hf
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „„Fiskur er heilsufæði“ - afmælisfundur RÍ á Grand Hóteli“, Náttúran.is: 23. september 2005 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/afmaelisfundur_ri/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 26. janúar 2008

Skilaboð: