Söfnun gagna um eldsneytisnotkun
Samkvæmt lögum um Orkustofnun (nr. 87/2003) ber stofnuninni að safna gögnum um eldsneytisnotkun landsmanna, sem og aðra orkunotkun. Eldsneytisgögnum, þar á meðal sölutölum olíufélaganna, var safnað samfleytt frá árinu 1988 allt til ársins 2003 en þá varð breyting þar á. Vegna ákvörðunar Samkeppnisráðs um ólögmætt samráð olíufélaganna, frá 28. október 2004, álitu sum þeirra að birting gagnanna gæti hugsanlega brotið gegn samkeppnislögum og slitu því samstarfi við Orkustofnun um skil á eldsneytisgögnum. Olíufélögunum bar á þeim tíma enda engin lagaleg skylda til að skila Orkustofnun sölutölum sínum.
Á hinn bóginn bar Orkustofnun lagaleg skylda til að safna þessum sömu gögnum. Eins og gefur að skilja var þetta ósamræmi, og það óvissuástand sem af því hlaust, óviðunandi og á fyrri hluta árs 2007 var lögum um Orkustofnun breytt þannig að nú ber fyrirtækjum að skila gögnum um eldsneytissölu og aðra orkunotkun og sölu til stofnunarinnar. Áður hafði Samkeppnisráð gefið það álit sitt að olíufélögunum væri heimilt að taka þátt í starfi eldsneytishópsins, að gefnum þeim forsendum sem eldsneytishópurinn starfar eftir. Nú hefur samvinna við öll olíufélögin hafist á ný og gögn borist vegna áranna 2003-2006. Jafnframt eiga flest þeirra nú fulltrúa í eldsneytishóp Orkuspárnefndar og hefur samvinnan gengið að óskum.
Það er ekki eingöngu í því skyni að gera eldsneytisspár sem Orkustofnun safnar gögnum um eldsneytisnotkun. Þótt spárnar séu mikilvægar, kemur það til viðbótar að gögnin eru einnig bráðnauðsynleg vegna alþjóðlegra skuldbindinga Íslendinga. Þeirra á meðal er Loftslagssáttmáli Sameinuðu þjóðanna, þar sem hluti af Kýótó bókuninni við sáttmálann kveður á um upplýsingaskyldu aðildarríkjanna, þar sem koltvísýringslosun er metin, m.a. eftir eldsneytisnotkun. Um helmingur útblásturs Íslendinga er tilkominn vegna samgangna og fiskveiða og því eru gögn um eldsneytissölu mjög mikilvæg til þess að við getum uppfyllt okkar upplýsingarskyldu.
Eins og sést á mynd 2 (sjá hér að ofan), eru um 63% af innfluttum jarðolíuvörum gasolía, þotueldsneyti og bensín, en þetta eru þær olíuvörur sem einkum eru notaðar til samgangna og fiskveiða. Um helmingur af útblæstri Íslendinga er kominn til vegna
samgangna og fiskveiða, en hinn helmingurinn kemur til að miklu leyti vegna iðnaðar. Kol, kolakox og skautmassi eru fyrst og fremst notuð í iðnaði, og má raunar oft deila um það hvort kol sem flutt eru inn til Íslands teljist til orku eða iðnaðarhráefnis. Á mynd 2 eru allar jarðolíuvörur taldar með, hvort sem er til iðnaðar eða orkuvinnslu.
Söfnun gagna um eldsneytisnotkun, breytt heimssýn og breytt gagnaöflun
Flokka má þau gögn sem eldsneytishópurinn hefur safnað um eldsneytisnotkun í fjóra hluta. Í þann fyrsta fellur eldsneyti sem keypt er innanlands til notkunar hér. Í annan hluta fellur eldsneyti sem Íslendingar kaupa innanlands til millilandanotkunar, sem í þessu samhengi
merkir til samgangna til og frá Íslandi eða til fiskveiða. Í þriðja hluta kemur síðan eldsneyti sem Íslendingar kaupa erlendis til millilandanotkunar. Loks er í fjórða og síðasta hluta eldsneyti sem keypt er innanlands af erlendum aðilum til millilandanotkunar. Samtímis þeirri miklu uppstokkun sem hafin er á starfsemi eldsneytishópsins og gerð spánna, hefur þótt rétt að endurskoða gagnaöflun hópsins og miða hana við það sem tíðkast hjá þeim þjóðum sem við helst berum okkur saman við.
Með aukinni hnattvæðingu og skráningu fyrirtækja á alþjóðlegum hlutafjármörkuðum verða skilin á milli íslenskra og erlendra aðila æ óskýrari. Því er ekki lengur gerður greinarmunur á því eldsneyti sem Íslendingar og erlendir aðilar kaupa til millilandanotkunar og það flokkast því orðið í sama hluta. Hér er gasolía til fiskiskipa undanskilin, en meira um það síðar. Af sömu ástæðu - þ.e. vegna erfiðleika við að gera greinarmun á íslenskum og erlendum aðilum – hefur söfnun gagna um eldsneytiskaup Íslendinga erlendis verið aflögð. Þetta er einnig í samræmi við það sem tíðkast víða erlendis og er með þessum hætti komist hjá því að tvítelja á milli landa.
Með öðrum orðum fara þá eldsneytiskaup Íslendinga erlendis inn í Kýótó bókhaldið sem millilandanotkun þess lands sem eldsneytið er keypt í, á sama hátt og eldsneytiskaup erlendra aðila hér á landi fara inn í Kýótó bókhaldið sem millilandanotkun okkar. Fiskiskipin njóta nokkurrar sérstöðu hér á landi, enda eru þau stór hluti eldsneytisnotkunar Íslendinga. Mikill hluti gasolíu sem seld er til fiskiskipa fer jafnframt til erlendra aðila, og þykir ástæða til að halda bókhaldinu aðskildu milli íslenskra og erlendra fiskiskipa eins lengi og auðið er.
Sú grundvallarbreyting sem orðin er á felst þess vegna í því að ekki er lengur reynt að einangra eldsneytisnotkun Íslendinga frá notkun annarra þjóða, heldur er fylgst með því eldsneyti sem selt er innan ríkismarka á sama hátt og gert er annars staðar.
Ef til vill er einfaldast að átta sig á þeim breytingum sem hafa orðið með því að skoða dæmi um heildarnotkun eldsneytis í flugi, fyrst með gömlu leiðinni og svo með þeirri nýju. Í töflu 1 er tekið dæmi um eldsneytisnotkun í flugi árið 2002, sem er síðasta árið sem gögnum var safnað með gömlu aðferðinni, og því síðasta árið sem hægt er gera þennan samanburð. Fyrsta röðin sýnir innanlandsnotkun, en flug innanlands hefur eingöngu verið á höndum íslenskra aðila, svo það var ekki flokkað sérstaklega áður eftir þjóðerni. Næstu þrjár raðir eiga við millilandanotkun, þ.e. flug til og frá Íslandi. Önnur röðin sýnir þar með millilandanotkun Íslendinga, þriðja röðin millilandanotkun útlendinga sem hafa viðkomu á Íslandi og kaupa eldsneyti hér, og fjórða röðin sýnir kaup Íslendinga á eldsneyti erlendis. Þegar gefið hefur verið yfirlit yfir eldsneytisnotkun í flugi, þá hefur gjarnan verið sýnd íslensk notkun, og er það fyrri dálkurinn. Þá eru allar tölur með, nema það sem hefur verið selt til erlendra aðila.
En eins og áður hefur komið fram, getur verið erfitt að skilgreina fyrirtæki sem skráð eru á alþjóðlegum hlutafjármörkuðum, sem íslensk eða erlend. Það sem hægt er að gera, er að fylgjast með því eldsneyti sem selt er innan ríkismarka Íslands, enda kemur það eldsneyti inn í okkar upplýsingaskyldu, t.d. vegna Kýótó sáttmálans. Seinni dálkurinn er því einmitt yfirlit yfir það eldsneyti sem selt er á Íslandi, og má þá einu gilda hvaðan kaupendurnir koma. Ef þessum gögnum væri safnað núna væru því einungis tvær tölur; notkun innanlands sem væri óbreytt eða tæp 7 kílótonn, og millilandanotkun sem væri upp á rétt rúm 98 kílótonn.
Á myndum 3 og 4 sést að eldsneytisnotkun í flugi minnkar töluvert, sem og í fiskveiðum Íslendinga og millilandasiglingum þar sem eldsneyti keypt erlendis er ekki lengur tekið með í reikninginn. Mynd 3 nær eingöngu til ársins 2002, enda miðast breytt gagnaöflun við það ár.
Mynd 2. (efst) Innfluttar jarðolíuvörur, skipt eftir tegundum, 2006.
Mynd 3. Eldsneytisnotkun eftir greinum eins og gögnin voru
flokkuð til ársins 2002.
Mynd 4. Eldsneytisnotkun eftir greinum, ný flokkun.
Tafla 1. Breytt gagnasöfnun. Dæmi úr eldsneytisnotkun í flugi árið 2002. Magn er heildarnotkun á flugvélabensíni og þotueldsneyti
í tonnum.
Úr Orkumál 2006.
Birt:
Tilvitnun:
Orkustofnun „Söfnun gagna um eldsneytisnotkun“, Náttúran.is: 26. janúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/01/26/sofnun-gagna-um-eldsneytisnotkun/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.