Vinna er hafin við að endurskoða byggingarreglugerð, sem ætlað er að standast samanburð við það sem best gerist hvað varðar sjálfbæra þróun þar sem opin stjórnsýsla, gegnsæi og lýðræðisumbætur eru höfð að leiðarljósi. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra skipaði nefnd til endurskoðunar reglugerðarinnar í dag.

Nefndin mun í starfi sínu hafa hliðsjón af nýju frumvarpi um mannvirkjalög, sem lagt verður fyrir Alþingi á næstunni, og er ætlað hafa víðtækt samráð við ýmsa hagsmunaaðila við endurskoðun reglugerðarinnar. Meðal nýmæla  sem nýrri byggingarreglugerð er ætlað að taka til eru eftirtalin atriði:

  • Aukin áhersla á umhverfismál, m.a. með því að styðja vistvænni samgöngumáta og skapa aðstæður til flokkunar sorps.
  • Byggingar sem ætlaðar eru börnum og ungmennum verði hannaðar með það að markmiði að skapa örugg skilyrði til lífs og þroska, t.d. með því að tryggja vandaða hljóðhönnun í skólaumhverfi.
  • Aðgengismál hafi það markmið að uppfylla ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

Jafnframt er nefndinni ætlað að leggja til stjórntæki til að koma í veg fyrir að mannvirki sem ekki uppfylla skilyrði laganna eða reglugerðarinnar verði tekin í notkun nema að uppfylltum þessum skilyrðum.

Nefndin er þannig skipuð:
Björn Karlsson, brunamálastjóri, er formaður nefndarinnar
Ólöf Örvarsdóttir, skipulagsstjóri Reykjavíkurborgar
Björn Guðbrandsson, arkitekt og stundakennari við Háskólann í Reykjavík

Að auki munu tveir starfsmenn umhverfisráðuneytisins starfa með nefndinni:
Hafsteinn Pálsson, verkfræðingur
Steinunn Fjóla Sigurðardóttir, lögfræðingur

Birt:
Jan. 21, 2010
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Endurskoðun á byggingarreglugerð hafin“, Náttúran.is: Jan. 21, 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/21/endurskodun-byggingarreglugerd-hafin/ [Skoðað:Aug. 15, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: