Loftslagsþing hófst á Balí í morgun
Vonast er til að í Balí verði lagður grunnur að samkomulagi um hvað taki við þegar Kyoto-bókunin um takmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda fellur úr gildi í lok árs 2012. Stefnt er að því að ljúka þessu samningaferli í Kaupmannahöfn árið 2009.
Þinginu lýkur á ráðherrafundi sem hefst 12. desember. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra mun sækja ráðherrafundinn fyrir hönd Íslands. Aðrir í sendinefnd Íslands á þinginu eru Magnús Jóhannesson, ráðuneytisstjóri umhverfisráðuneytisins, Anna Kristín Ólafsdóttir, aðstoðarkona umhverfisráðherra, Hugi Ólafsson, skrifstofustjóri í umhverfisráðuneytinu, Stefán Einarsson, sérfræðingur í umhverfisráðuneytinu, Sveinn Þorgrímsson úr iðnaðarráðuneytinu og Bjarni Sigtryggsson úr utanríkisráðuneytinu.
Auk þeirra sækja fundinn þeir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, Björgólfur Thorsteinsson, formaður Landverndar og Pétur Reimarsson frá Samtökum Atvinnulífsins.
Rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var samþykktur í Ríó de Janeiró árið 1992. Markmið hans er að koma í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af mannavöldum, og tryggja þannig að matvælaframleiðslu í heiminum verði ekki stefnt í hættu og að efnahagsýróun geti haldið áfram á sjálfbæran máta. Jafnframt er það markmið samningsins að stuðla að alþjóðlegri samvinnu um að auðvelda félagslega og efnahagslega aðlögun að loftslagsbreytingum.
Kyoto-bókunin var samþykkt árið 1997 sem viðbót við rammasamninginn. Samkvæmt henni eru sett bindandi markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda á tímabilinu 2008-2012.
Myndin er frá setningu 13. Lofslagsþings aðildarríkja Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna um lofslagsbreytingar á Balí í Indónesíu í morgun. Frétttatilkynning frá Umhverfisráðuneytinu. Uppruni myndar www.unfccc.int.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Loftslagsþing hófst á Balí í morgun“, Náttúran.is: 3. desember 2007 URL: http://nature.is/d/2007/12/03/loftslagsthing-hofst-bali-i-morgun/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 4. desember 2007