Íslandsvinir efndu til blaðamannafundar á kaffi Hljómalind í morgun í tilefni af útgáfu upplýsingabæklings um álframleiðslu og virkjanaáform á Íslandi. Bæklingur Íslandsvina hefur þann tilgang að jafna vogarskálarnar hvað varðar upplýsingar um virkjanaáform og afleiðingar þeirra fyrir Ísland og Íslendinga um ókomin ár. Upplýsingastreymið frá Landsvirkjun og ríkisstjórninni hafi ekki að markmiði að sýna okkur hverjar afleiðingarnar muni verða, gangi áformuð stóriðjustefna eftir. Bæklingnum verður dreift á öll heimilli landsins á næstu dögum.

Íslandsvinir er hópur af fólki sem lætur sig varða náttúru Íslands og velferð íslensks samfélags. Hópurinn er óskráður og óháður, auk þess sem hann tengist engum stjórnmálaflokki.

Sjá fréttatilkynninguna í heild sinni:

Íslandsvinir er hópur af fólki sem lætur sig varða náttúru Íslands og velferð íslensks samfélags. Hópurinn er óskráður og óháður, auk þess sem hann tengist engum stjórnmálaflokki. Íslandsvinir eiga það sameiginlegt að þykja atvinnu- og byggðastefna ríkistjórnar Íslands, svokölluð stóriðjustefna, ósættanleg, því ef sú stefna heldur velli mikið lengur er ljóst að stóriðja mun ryðja úr vegi fjölda atvinnugreina, verða þrándur í götu sprotafyrirtækja og grasrótarstarfsemi, kæfa smáiðnað og síðast en ekki síst mun Ísland eiga á hættu að glata því dýrmæta tækifæri að verða vistvænt, sjálfbært þekkingarsamfélag.

Það er okkar eindregna skoðun að stóriðjustefnan sé tímaskekkja sem nauðsynlegt er að leiðrétta, því í tæknivæddu lýðræðisríki, sem hefur ein hæstu lífsgæði í heimi, er engin skynsemi falin í því að þjóðin gefi erlendum auðhringjum sínar fegurstu og verðmætustu náttúruperlur. Þessar náttúruperlur eru auðlind framtíðarinnar og við teljum óhæft að komandi kynslóðir fái ekki tækifæri til að njóta þeirra á þann hátt sem við höfum gert hér á Íslandi um aldir alda.

Í ljósi þess að undanfarin misseri hefur ríkisstjórn Íslands rekið stóriðjustefnu og gefið erlendum stóriðjufyrirtækjum raforkuloforð sem nema 50 terawattstundum, hafa Íslandsvinir brugðið á það ráð að gefa út bækling sem upplýsir hvað það felur í sér fyrir land og þjóð ef staðið verður við þetta raforkuloforð. Það er alveg ljóst að þessar 50 terawattstundir fela í sér að virkja þyrfti öll okkar fegurstu háhitasvæði og allar helstu jökulár.
Meðal svæða í hættu, eru Reykjadalir í Kerlingarfjöllum, en þrátt fyrir að svæðið sé ekki í fyrsta áfanga rammaáætlunar um nýtingu jarðvarma, hefur Orkuveita Reykjavíkur sótt um rannsóknarleyfi á svæðinu.

Auk þess eru háhitasvæði Friðlands að Fjallabaki í hættu, svo og nánast öll háhitasvæði Reykjaness og norðurlands. Meðal þeirra fallvatna sem ekki hafa verið tekin nú þegar en ráðgert er að nýta til raforkuframleiðslu fyrir stóriðju eru Jökulsár Skagafjarðar og Neðri-Þjórsá, Skjálfandafljót, Jökulsá í Fljótsdal, Markarfljót, Tungnaá og Skaftá, en Skaftárveita fæli í sér eyðileggingu bláasta vatns í heimi, Langasjávar, sem breytt yrði í miðlunarlón.

Enn fremur eru Þjórsárverin á lista orkumálastjóra sem nýtanleg til raforkuframleiðslu fyrir stóriðju. Öll þessi svæði, ásamt fjölda annara sem eru á lista Orkustofnunar, duga ekki til að standa við raforkuloforð núverandi stjórnvalda. Það er því ljóst að í öðrum áfanga rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verður langur listi og spyrjum við: Mun hann innihalda Kerlingarfjöll, Kverkfjöll, Grímsvötn, Hvítá, Jökulsá á Fjöllum og jafnvel Geysissvæðið? Ef ekki, hvaða svæði önnur eru möguleg til að fylla upp í loforðið um 50 terawattstundir? Það liggur í augum uppi að þetta loforð er langt umfram það sem ásættanlegt getur talist fyrir þjóð sem hefur ótal aðra möguleika til atvinnuuppbyggingar.

Íslandsvinir boða til þessa fundar í tilefni af útgáfu upplýsingabæklings um álframleiðslu og virkjanaáform á Íslandi. Að okkar mati hallar verulega á lýðræði varðandi upplýsingaflæði til fólks, þar sem stóriðjufyrirtæki og ríkisstofnanir, s.s. Landsvirkjun hafa úr miklu fjármagni að moða til að koma sínum málstað á framfæri, auk þess sem Landsvirkjun starfar í krafti ríkisvaldsins sem sjálft rekur stóriðjustefnuna. Við Neðri-Þjórsá berjast um þessar mundir íbúar þeirra sveitarfélaga sem að ánni liggja fyrir tilverurétti árinnar svo og sínum eigin, en hafa engan vettvang til að tjá málstað sinn.

Sama gildir um þá sem munu þurfa að bregða búi vegna álvers á Bakka og það fólk sem mun þurfa að leggja niður atvinnustarfsemi ef virkjanaáform ná fram að ganga í Skagafirði og á Reykjanesi. Bæklingur Íslandsvina hefur þann tilgang að jafna vogarskálarnar örlítið og verður honum dreift á öll heimilli landsins á næstu dögum. Hann lýsir álframleiðslu í alþjóðlegu samhengi, þeirri mengun sem hlýst af báxíðnámugreftri og því að ferðast yfir hálfan hnöttinn til að bræða súrál auk þeirrar gríðarlegu mengunarlosunar sem eitt álver felur í sér.

Einnig fjallar bæklingurinn lítillega um mengun frá jarðvarma- og vatnsaflsvirkjunum, en hingað til hefur stóriðjustefnan verið rekin meðal annars í skjóli þess að jarðvarmi og vatnsafl sé 100% hrein orka, sem er öldingis rangt. Sú röksemdarfærsla að það sé hnattræn skylda Íslendinga að nýta allar sínar orkuauðlindir til álbræðslu sem framlag í baráttunni gegn gróðurhúsaáhrifum er hrakin í bæklingnum. Áður en litlum hópi fólks tekst að fullvirkja Ísland fyrir stóriðju og binda um 90% af raforkuverði í heimsmarkaðsverð á áli, þykir Íslandsvinum brýn nauðsyn að við, fólkið sem byggjum þetta land gerum okkur grein fyrir því hversu alvarlegar afleiðingar það mun hafa í för með sér fyrir okkur og komandi kynslóðir.

Við hvetjum fólk eindregið til að geyma bæklinginn og lesa hann vandlega til glöggvunar á þessu mikilvæga máli með það í huga að taka ábyrga afstöðu byggða á þekkingu.

Íslandsvinir.

Ljósmynd: Vala Smáradóttir. 

Birt:
2. maí 2007
Höfundur:
Vala Smáradóttir
Tilvitnun:
Vala Smáradóttir „Íslandsvinir gefa út upplýsingabækling um álframleiðslu og virkjanaáform á Íslandi“, Náttúran.is: 2. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/02/slandsvinir-gefa-t-upplsingabkling-um-lver-og-virk/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 3. maí 2007

Skilaboð: