Ljósmyndasamkeppni Landverndar
Landvernd efnir til ljósmyndakeppni undir yfirskriftinni „Augnablik í eldfjallagarði“.
Í eldfjallagarðinum, frá Reykjanesi að Þinvallavatni, er að finna fjölbreytilegt myndefni allt frá fjörum, brimi og sjávarklettum upp í hverasvæði, gíga og hrauntraðir í hálendislandslagi. Þemu keppninnar eru hverir, jarðmyndanir og náttúruperlur. Í dómnefnd keppninnar sitja ljósmyndararnir Ellert Grétarsson og Oddgeir Karlsson auk fulltrúa Landverndar sem er Guðrún Tryggvadóttir myndlistarmaður. Skilafrestur mynda er 10. ágúst.
Sett verður upp sýning á völdum myndum í húsnæði Miðstöðvar símenntunar á Suðurnesjum. Sýningin verður opnuð miðvikudaginn 29. ágúst og verður opin fram yfir Ljósanótt í Reykjanesbæ. Við opnun sýningarinnar verða afhent vegleg verðlaun.
Eldfjallagarðurinn hefur löngum verið vinsæll til útivistar og ljósmyndunar enda aðeins steinsnar frá höfuðborgarsvæðinu. Eldfjallagarðurinn hefur að geyma fjölmörg vel falin og lítt þekkt náttúruundur enda er jarðfræði Reykjanesskagans einstök á heimsvísu þar sem sjá má hvar úthafshryggur gengur á land. Sérstaða og fjölbreytileiki svæðisins, nálægð við þéttbýlið og alþjóðlegan flugvöll mynda grunninn að framtíðarsýn Landverndar um „Eldfjallagarð og fólkvang“ þar sem náttúruvernd, ferðaþjónustu, útivist og orkuvinnslu er ætlað að vinna saman í góðri sátt í anda sjálfbærrar þróunar.
Nánari upplýsingar um keppnina er að finna á heimasíðu Landverndar, landvernd.is . Titill myndar: Indjánahöfðinginn við Kleifarvatn með Sveifluháls í bakgrunni. Ljjósmynd: Jónatan Garðarsson.
Birt:
Tilvitnun:
Landvernd „Ljósmyndasamkeppni Landverndar“, Náttúran.is: 13. júlí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/07/13/ljsmyndasamkeppni-landverndar/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 28. ágúst 2007