Fjöruverk Sigurðar GuðmundssonarVefurinn er meistaraverkefni Sigurlaugar Þ. Ragnarsdóttur listfræðings í Hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands árið 2010. Meginmarkmið vefsíðunnar er að stuðla að lifandi og gagnvirkum tengslum vegfarandans við umhverfið og menningarheim íslendinga.

Áhorfandinn leggur að lokum til sína eigin þekkingu og persónulegu reynslu í túlkun á listaverkinu, þar sem samspil á sér stað á milli listaverksins og áhorfandans við hugmyndir listamannsins. Vefurinn byggir m.a. á rannsókn sem höfundur vefsins vann fyrir Listasafn Reykjavíkur á árunum 2007 - 2008.  Í gagnagrunninum er að finna allar helstu grunnupplýsingar um útilistaverk í opinberu rými Reykjavíkurborgar, höfundum verkanna og staðsetningu útilistaverkanna út frá götukorti af miðborg Reykjavíkur.

Ljósmyndari vefsins er Jóhann Smári Karlsson en vefurinn er prýddur fallegum ljósmyndum af útilistaverkunum og umhverfi þeirra í miðborg Reykjavíkur. Höfundur sér að öllu leyti sjálfur um viðhald gagnagrunnsins sem er í stöðugri mótun en vefhönnunarfyrirtækið Memor ehf. hýsir vefinn.

Í gönguferð um miðborgina má sjá fjölda útilistaverka sem prýða byggingar, gangstéttir, sjó- og almenningsgarða. Að baki hverju verki er listamaður sem hefur unnið útilistaverkið út frá sögulegu samhengi og í samvinnu við umhverfið. Sköpunarkraftur, sýn og persónuleg viðhorf listamannsins endurspeglast í list hans, þar sem skilaboðin eru mismunandi en eiga það sameiginlegt að þau varðveita minningu um ákveðna atburði og einstaklinga.

Sjá nánar á www.utilistaverk.is. Mynd: Fjöruverk Sigurðar Guðmundssonar við Sæbrautina í Reykjavík.

Birt:
1. júlí 2010
Tilvitnun:
Sigurlaug Þ. Ragnarsdóttir „Nýr vefur um útilistaverk í Reykjavík“, Náttúran.is: 1. júlí 2010 URL: http://nature.is/d/2010/07/01/nyr-vefur-um-utilistaverk-i-reykjavik/ [Skoðað:26. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: