MAST íhugar að taka upp hollustumerkið Skráargatið
Neytendasamtökin hafa fjórum sinnum lagt fram tillögur til stjórnvalda um að láta taka norræna hollustumerkið Skráargatið upp hér á landi. Fimm þingmenn lögðu fram þingsályktunartillögu um málið í vikunni og nú íhugar Matvælastofnun (MAST) að taka merkið upp.
Skráargatið er hollustuvottun á matvörur sem gefur til kynna að viðkomandi vara sé sú hollasta í sínum flokki. Til að fá Skráargatið þarf matvara að uppfylla ákveðnar kröfur um magn salts, sykurs, fitu, mettaðrar fitu og trefja og getur einungis hollasta varan fengið merkið.
Samkvæmt upplýsingum frá MAST geta sælgæti, gos eða aðrar matvörur sem teljast óhollar ekki fengið Skráargatið. Markmiðið er að gefa neytendum færi á að velja hollan mat án mikillar fyrirhafnar.
"Neytendasamtökin hafa frá 2008 ítrekað skorað á stjórnvöld að taka merkið upp en auk þeirra hafa Lýðheilsustöð, Manneldisráð, talsmaður neytenda og umboðsmaður barna hvatt til þess að merkið verði tekið upp. Í skýrslu faghóps forsætisráðherra um að efla lýðheilsu frá 2005 er mælt með upptöku slíks merkis og bent sérstaklega á jákvæða reynslu Svía af Skráargatinu," segir í þingsályktunartillögunni.
Birt:
Tilvitnun:
sv „MAST íhugar að taka upp hollustumerkið Skráargatið“, Náttúran.is: 17. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/17/mast-ihugar-ad-taka-upp-hollustumerkid-skraargatid/ [Skoðað:4. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.