Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra hefur beint þeirri ósk til sveitarstjórna Skaftárhrepps, Hornafjarðar og Vestmannaeyja að þær skoði alla möguleika til að hætta eða draga verulega úr sorpbrennslu þar til niðurstöður frekari rannsókna liggja fyrir. Bréf þess efnis var sent í dag. Óskin er sett fram í kjölfar mælinga á díoxíni úr búfjárafurðum og fóðri sem tekin voru á Vestfjörðum og í Öræfum. 

Einnig hefur umhverfisráðherra ákveðið að hraða afgreiðslu tillagna Umhverfisstofnunar um auknar kröfur í reglugerð til eldri sorpbrennslustöðva. Í þeim yrði meðal annars kveðið á um að sorpbrennslustöðvum sem enn starfa samkvæmt undanþágu frá árinu 2003 fái afmarkaðan tíma til að uppfylla ströngustu skilyrði fyrir sorpbrennslur en loki ella.

Umhverfisráðherra hefur leitað álits Umhverfisstofnunar á því hvort stofnunin hafi heimild samkvæmt lögum til að stöðva starfsemi umræddra sorpbrennslustöðva þangað til Sóttvarnalæknir hefur lokið við heilsufarsrannsókn á íbúum sveitarfélaganna. Er það álit stofnunarinnar, í samræmi við niðurstöðu fundar með Sóttvarnalækni og Matvælastofnun, að ekki sé um bráðahættu að ræða og því sé skilyrðum laga um heimild til skyndilokunar ekki uppfyllt.

Í ljósi þess hefur umhverfisráðherra ákveðið að beina áðurnefndri ósk til sveitarfélaganna þriggja og hefja könnun á því með hvaða hætti setja megi lagaákvæði sem heimili stjórnvöldum að grípa til skyndiráðstafana ef óvissa er um mengun og áhrif hennar á lífríki. 

Umhverfisstofnun hefur kynnt fyrir umhverfisráðherra áætlun um umhverfismælingar vegna díoxíns frá mögulegum uppsprettum díoxíns. Stofnunin mun hrinda þeirri áætlun í framkvæmd eins fljótt og auðið er. Umhverfisstofnun, Matvælastofnun og Sóttvarnalæknir munu efna til borgarafunda með íbúum sveitarfélaga í nágrenni við sorpbrennslustöðva og verður fyrsti fundurinn haldinn á morgun á Kirkjubæjarklaustri.

Birt:
9. febrúar 2011
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Viðbrögð umhverfisráðherra vegna díoxínmengunar“, Náttúran.is: 9. febrúar 2011 URL: http://nature.is/d/2011/02/09/vidbrogd-umhverfisradherra-vegna-dioxinmengunar/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: