Íslenski bærinn - í tilefni Safnadagsins
Íslenski bærinn - Rannsóknar- og kennslumiðstöð er nú að rísa að Austur-Meðalholtum í Gaulverjabæjarhreppi í Flóa.
Íslenski bærinn - Rannsóknar- og kennslumiðstöð er nú að rísa að Austur-Meðalholtum í Gaulverjabæjarhreppi í Flóa. Hugmyndafræðingar og framkvæmdaraðilar eru hjónin Hannes Lárusson og Kristín Magnúsdóttir. Þau hafa nú um 20 ára skeið staðið að uppbyggingu torfbæjanna sem stóðu á bæjarhól Austur-Meðalholts en þegar hafist var handa við verkið var svo að segja allt komið að hruni, þegar fallið saman, eða í algerri niðurný slu, fyrir utan baðstofuna sem var þó orðin illa farin. Hannes var uppalin á staðnum og er auk þess listamaður og smiður góður. Tókst Hannesi og Kristínu, með hjálp góðra manna, að bjarga bænum frá glötun og eru nú byrjuð á ný byggingu fyrir rannsókna- og kennslumiðstöðina sem verður hluti af starfsemi Íslenska bæjarins. Torfbærinn í Austur-Meðalholti eru dæmigerður íslenskur bær með sunnlenska laginu. Á Íslandi eru fáir slíkir bæir uppistandandi og enginn á þessu landssvæði og því mikilvægt að hlúa að uppbyggingu hans og varðveislu. Í íslenska torfbænum kristallast stór hluti af sögu og lifnaðarháttum íslendinga í aldanna rás. Þeir torfbæir sem enn standa eru meðal fárra mannvirkja í landinu sem telja má að séu verðmæti á heimsvísu.
Hugmyndin í hnotskurn: Að byggja kennslu- og rannsóknarmiðstöð með tilheyrandi sýningaraðstöðu að Austur-Meðalholtum. Stofnun þessi mun hafa þau markmið að efla og rækta verkkunnáttu sem mun nýtast við viðhald torfbygginga og annarra skyldra mannvirkja, að draga af þessari byggingarlist lærdóma sem nýta má við smíði nýrra og nútímalegra mannvirkja og síðast en ekki síst að beina sjónum að fegurð og listgildi íslenskra bæja. Meginstarfsemi miðstöðvarinnar mun felast í námskeiðahaldi, fyrirlestrum, sýningum, viðhalds- og ný byggingarverkefnum og ráðgjöf.
Vistvæn meðvitund:
Í áætlunum öllum er gert ráð fyrir að ný byggingin fylgi álíka vistvæni og íslenskir torfbæir gerðu, þó fylgt sé nútímalegri arkitektúr á köflum og uppsteyptur grunnur hafi verið valinn til að lengja líftíma byggingarinnar. Bærinn tengist vistvænum/lífrænum arkitektúr í samtímanum og staðbundinni byggingarlist á heimsvísu. Viðmið í hönnun á kennsluaðstöðu og sýningarskála Íslenska bæjarins eru: Notkun á jarðvegi sem einangrun, gras á þökum, endurnotkun á byggingarefnum, sólarljós sem hitagjafi, (viðarofnar, sólarsellur, vindmillur), aðlögun að landslagi, mýrin, gróður, tillit til ríkjandi vindátta, vatnsbúskapur.
Sjá nánar um verkefnið á vef Íslenska bæjarins.
Efri myndin t.v. er tekin að þeim Hannesi og Kristínu við kálfakofann að Austur-Meðalholtum og sú til hægri er útlitsteikning af rannsóknar- og kennslumiðstöðinni. Myndin hér t.v. er af smiðju sem Hannes byggði frá grunni enda sú gamla gerónýt.
Ljósmyndir: Guðrún Tryggvadóttir. 09. 07. 2006.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Íslenski bærinn - í tilefni Safnadagsins“, Náttúran.is: 9. júlí 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/20/islenski_baerinn/ [Skoðað:21. nóvember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 20. mars 2007
breytt: 15. janúar 2008