Atvinnulífið ætti að nota niðursveifluna í heiminum til að ýta undir græna tækni, sem mun bæði spara fé og hlífa jörðinni, að því er Reuters hefur eftir Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna.

Tækni sem er fyrir hendi og reynsla er af getur sparað 30% í orkunotkun bygginga án þess að auka verulega upphaflega fjárfestingu, hefur Reuters eftir Angela Cropper aðstoðarframkvæmdastjóra Umhverfisáætlunar S.þ., UNEP. Á ráðstefnu í Bangkok um viðskipti sagði hún að nú væri tækifærið til að auka hraða í aðgerðum til að taka samtímis á efnahagsmálum heimsins og loftslagsbreytingum.

Í skýrslu UNEP fyrir árið 2008 kemur fram að framtaksfjármagn og fjárfestingar fjárfestingasjóða  í endurnýjanlegri orku jókst um 34% á öðrum fjórðungi í fyrra frá sama fjórðungi árið 2007.

Cropper segir einnig að fjármögnun í smáum skömmtum geti aðstoðað þróunarríki við að hrinda í framkvæmd umhverfisvænni stefnu. Í Bangladess hafi smá lán gert kvenkyns frumkvöðlum kleift að koma upp sólarorkuplötum til að afla orku fyrir 100.000 heimili.

Myndin er af solar-eldshúsi.
Birt:
24. janúar 2009
Höfundur:
Viðskiptablaðið
Tilvitnun:
Viðskiptablaðið „Niðursveiflan nýtist fyrir umhverfið“, Náttúran.is: 24. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/24/nioursveiflan-nytist-fyrir-umhverfio/ [Skoðað:26. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: