„Ég veit að margir Reykvíkingar eru spenntir að koma áhugamáli sínu um matjurtarækt í framkvæmd, þessi samningur ætti að styðja vel við þann áhuga,“ sagði Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs í tilefni af samkomulagi Reykjavíkurborgar og Garðyrkjufélags Íslands um matjurtagarða við Stekkjarbakka í sumar.

„Garðyrkjufélagið getur með þessum samningi stutt við matjurtarækt með fræðslu og tengslum milli ræktenda,“ segir Þorbjörg Helga og að Reykjavíkurborg láti Garðyrkjufélaginu í té 2.500 fm svæði við Stekkjarbakka, Dalbæ við Vatnsveituveg, og tryggi aðgengi að vatnslögn til vökvunar lands. Garðyrkjufélagið mun annast útleigu garðlanda. „Ég vona að matjurtarækt festist í sessi í grennd við borgarhverfin og fái fastan stað í skipulagi borgarinnar,“ segir Vilhjálmur Lúðvíksson formaður Garðyrkjufélagins.

Garðyrkjufélagið kynnir nánar fyrirkomulag garðanna en búast má við um það bil 50- 80 görðum á svæðinu til matjurtaræktunar og að þeir verði 25 fm stórir hver um sig og leigðir á 5.000 krónur.

„Hér er um mjög gott tilraunaverkefni að ræða,“ segir Lilja Sigrún Jónsdóttir læknir og stjórnarmeðlimur í Garðyrkjufélaginu, „þetta er grenndarverkefni og ég vona að þarna skapist samfélag fólks sem deilir áhugunum og tekur ábyrgð á verkefninu. Þannig mun þetta verkefni þróast áfram og við munum meta árangurinn í haust.“

„Borgin mun meta reynsluna af þessum samningi í haust og taka ákvarðanir til framtíðar um útleigu matjurtargarða til lengri og skemmri tíma,“ segir Þorbjörg Helga. Áhugi á matjurtagörðum hefur stóraukist á þessu ári og biðlistar eftir görðum myndast. Reykjavíkurborg leitast við að koma til móts við áhugasama. 200 matjurtagarðar eru leigðir út á vegum borgarinnar í Skammadal, milli 50-80 við Stekkjarbakka og 50-80 í lausum görðum í Skólagörðum Reykjavíkur víðsvegar um bæinn.

Myndin er tekin af hvítkálsbeði í garði Hildar Hákonardóttur í Ölfusi þ. 10.08.2008. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
April 30, 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Nýtt verkefni um matjurtagarða í Reykjavík “, Náttúran.is: April 30, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/30/nytt-verkefni-um-matjurtagaroa-i-reykjavik/ [Skoðað:Sept. 28, 2022]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: