RR-SKIL, sem er sameiginlegt skilakerfi fyrirtækja sem flytja inn rafbúnað, annast með samningum við Sorpu bs. móttöku og förgun á raf- og rafeindatækjaúrgangi frá 7 söfnunarstöðvum Sorpu bs. á höfuðborgarsvæðinu.

Þjónustuaðili fyrir RR-SKIL er Efnamóttakan hf. í Gufunesi sem tekur við úrganginum, nema því sem fer beint í Furu hf. frá söfnunarstöðvunum, flokkar hann og meðhöndlar bæði til förgunar hér á landi svo og til flutninga og förgunar erlendis. Einnig tekur Efnamóttakan hf. við rafbúnaðarúrgangi beint frá aðilum sem kjósa að skila honum þangað.

Með samningi við Efnamóttökuna hf. er einnig safnað og fargað rafbúnaðarúrgangi frá þremur söfnunarstöðvum Sorpeyðingar Suðurnesja í Reykjanesbæ, Grindavík og Vogum. Á höfuðborgarsvæðinu og Suðurnesjum búa 70% íbúa landsins. RR-SKIL ákvað að bæta einum gámi við á stóru söfnunarstöðvarnar fyrir rafbúnaðarúrgang og eru þeir nú fjórir. Einnig er það nýtt, að á áðurnefndum söfnunarstöðvum er sérstakt ílát fyrir ónýtar ljósaperur og ljósrör. Enn hefur ekki verið ákveðið hvaða svæði verður næst tekið fyrir, en að sjálfsögðu er stefnt að því að hægt verði að skila rafbúnaðarúrgangi víða um landið þar sem eru mannaðar söfnunarstöðvar.

Mynd: Veggspjald sem gert hefur verið fyrir félagsmenn RR-skila til að vekja athygli á því að fyrirtækin séu vistvæn að því leiti að þau tryggja rétta förgun rafeindaúrgangs sem neytendur eiga að skila sér að kostnaðarlausu á söfnunarstöðvar.

Birt:
Sept. 30, 2009
Höfundur:
Sigurður Jónsson
Tilvitnun:
Sigurður Jónsson „Skilakerfi fyrir raf- og rafteindatækjaúrgang komið af stað“, Náttúran.is: Sept. 30, 2009 URL: http://nature.is/d/2009/09/30/skilakerfi-fyrir-raf-og-rafteindataekjaurgang-komi/ [Skoðað:April 12, 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: