Kennileiti í líkingu við Eiffelturninn
Vatnajökulsþjóðgarður, stærsti þjóðgarður í Evrópu, verður formlega stofnaður í dag. Þjóðgarðurinn nær í fyrstu yfir um 13 þúsund ferkílómetra eða um 12 prósent af flatarmáli Íslands en gert er ráð fyrir að hann verði stækkaður á næstu árum.

Um helmingur þjóðgarðsins er jökull en í kynningarefni þjóðgarðsins kemur fram að markmið með stofnun hans sé að vernda Vatnajökul og landsvæði honum tengd. "Þetta verður okkar kennileiti, eins og okkar Eiffelturn," segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, um Vatnajökulsþjóðgarð.

Meginstarfsstöðvar þjóðgarðsins eru gestastofur. Nú þegar eru tvær slíkar, í Skaftafelli og Ásbyrgi, en til stendur að reisa fjórar stofur til viðbótar.

Að auki eru starfsstöðvar landvarða fjórar nú en verða ellefu eftir að uppbyggingu svokallaðs þjónustunets þjóðgarðsins lýkur. Er áætlað að kostnaður við uppbygginguna kosti um 1.150 milljónir króna og að henni ljúki á næstu fimm árum.

Í tilefni dagsins verður efnt til hátíðarhalda milli klukkan 15 og 17 í dag á fjórum rektstrarsvæðum þjóðgarðsins: í Gljúfrastofu í Jökulaárgljúfrum, á Skriðuklaustri í Fljótsdal, í Skaftafellsstofu í Skaftafelli og í Kirkjuhvoli á Kirkjubæjarklaustri.

Stórsigur í náttúruvernd
"Þetta er einn stærsti sigur náttúruverndar á Íslandi," segir Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka á Íslandi, um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðar.

Einna mikilvægast þykir honum að með þjóðgarðinum hefur því verið komið í kring að Jökulsá á Fjöllum er vernduð frá upptökum til sjávar. Hann telur þó að verndarákvæðin mættu vera sterkari þegar kemur að reglum um umferð ökutækja um svæðið sem og hestaferða. "En maður verður að brosa á góðum degi og fagna þeim árangri sem næst. Þetta er jú mikill sigur fyrir þá sem börðust gegn Kárahnjúkavirkjun og Eyjabakkalóni en börðust fyrir verndun og friðlýsingu á þeim svæðum sem eru norðan Vatnajökuls," segir hann.

Afar ánægður með áfangann
"Við erum að taka mjög stórt svæði til friðunar og náttúruverndar," segir Þórður H. Ólafsson, framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Hann segir Vatnajökulsþjóðgarð á margan hátt einstakan en það eitt hversu stór hann er muni án efa draga ferðamenn til landsins.

"Það sem er nýtt við þennan þjóðgarð er rýmri aðgangur heldur en almennt hefur tíðkast með þjóðgarða á Íslandi. En það eru auðvitað ákveðnar reglur sem gilda."

Þjóðgarðarnir í Skaftafelli og í Jökulsárgljúfri falla innan hins nýja þjóðgarðs. Þá er hluti lands sem fellur innan þjóðgarðsins í einkaeigu og segir Þórður að á ákveðnum svæðum geti menn áfram stundað hefðbundinn landbúnað.

"Við erum afar ánægð með að þessum áfanga skuli vera náð og erum spennt fyrir að takast á við ögrandi verkefni sem er að reka þjóðgarðinn. Það er gaman að taka þátt í stofnun þjóðgarðsins með heimamönnum og öðrum sem komið hafa að undibúningi með okkur."

Nýttur í tengslum við byggðauppbyggingu
Hjalti Þór Vignisson, bæjarstjóri á Höfn í Hornafirði, segir reglurnar sem settar hafa verið um þjóðgarðinn taka tillit til atvinnustarfsemi sem hægt er að stunda í tengslum við garðinn auk þarfa útivistarfólks. "Það er mjög mikilvægt að þessir þættir fái pláss innan þjóðgarðsins svo hægt sé að hagnýta hann í tengslum við byggðauppbygginu," segir hann.

Hjalti segir að ýmsa þætti eigi þó eftir að fullvinna eins og gengur í jafnviðamiklu verkefni og þessu. Nefnir hann sem dæmi þörf á því að ganga betur frá reglum í samskiptum við landeigendur á svæðinu. Auk þess telur hann að fleiri svæði ættu að falla undir svið garðsins og vonast hann til þess að þau verði hluti garðsins á næstu misserum, svo sem Langisjór auk fleiri jarða.

Hjalti viðurkennir að það hafi orðið honum vonbrigði að ekki sé gert ráð fyrir því að framkvæmdastjóri garðsins hafi aðsetur á Höfn. "Niðurstaðan varð önnur en við vonuðumst eftir og við ákváðum að sætta okkur við það en setja ekki stein í götu þessa mikilvæga verkefnis sem kemur til með að verða mikill aflvaki á svæðinu.

Þarf ekki að þýða dauða og djöful fyrir byggðir
Vatnajökulsþjóðgarður hefur það yfirlýsta markmið að vera atvinnuskapandi byggðaverkefni. Anna Kristín Ólafsdóttir, formaður stjórnar Vatnajökulsþjóðgarðs, segir það í fyrsta skipti sem ætlunin er að slík uppbygging fari saman við rekstur þjóðgarðs.

"Verkefnið vonum við að sýni og sanni að vernd og uppbygging atvinnu getur farið saman og á að fara saman. Að það sé ekki dauði og djöfull fyrir svæðin í kring heldur að í verndandi verkefnum geti beinlínis falist meiri verðmæti heldur en í margri annarri atvinnustarfsemi," segir hún.

Þá bendir Anna Kristín á að þjóðgarðurinn hafi ekki aðeins þýðingu fyrir náttúruvernd Íslendinga heldur heimsbyggðina alla vegna þeirra einstöku landsvæða sem tilheyra garðinum. Garðurinn hafi því mikilvægt hlutverk út frá náttúruverndarsjónarmiðum, pólitík og uppbyggingu byggðanna í kring. "Auk þess sem gert er ráð fyrir því að þetta eigi eftir að auka gjaldeyristekjur á Íslandi verulega og við skulum bara vona að það gangi eftir," bætir hún við en samkvæmt upplýsingum sem finna má á vef umhverfisráðuneytisins er gert ráð fyrir því að áætlaðar auknar gjaldeyristekjur vegna Vatnajökulsþjóðgarðs telur fyrirtækið að verði á árinu 2012 um þrír til fjórir milljarðar króna. Miðað við að hvert ársstarf í ferðaþjónustu kosti um tíu milljónir á ári gæti því verið um að ræða 150 ný störf á svæðinu, en mun fleiri á landinu í heild. Þá telur fyrirtækið að gera megi ráð fyrir veruleg fleiri heimsóknum í þjóðgarðinn eftir 2012 þegar þjónustunet hans verður fullmótað og að áætlaðar viðbótargjaldeyristekjur af erlendum ferðamönnum vegna Vatnajökulsþjóðgarðs gætu numið að minnsta kosti 11 milljörðum króna árið 2020.

Birt:
June 7, 2008
Höfundur:
Fréttablaðið
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
Fréttablaðið „Stærsti þjóðgarður Evrópu stofnaður í dag“, Náttúran.is: June 7, 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/07/staersti-thjoogarour-evropu-opnaour/ [Skoðað:April 1, 2023]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Messages: