Ný reglugerð um þvotta- og hreinsiefni
Ný reglugerð um þvotta- og hreinsiefni hefur tekið gildi. Með reglugerðinni eru innleiddar reglugerðir Evrópusambandsins sama efnis. Samræmdar reglur um markaðssetningu þvotta- og hreinsiefna tóku gildi í Evrópusambandslöndunum fyrir þremur árum og voru að þó nokkru leyti byggðar á eldri tilskipunum og starfsreglna þvottaefnaiðnaðarins.
Þvotta- og hreinsiefni innihalda yfirborðsvirk efni og með reglugerðinni eru gerðar strangari kröfur en fyrr um lágmarks lífbrjótanleika þeirra. Með reglugerðinni er einnig komið á skyldubundnum merkingum á umbúðum þvotta- og hreinsiefna og þar skulu nú talin upp helstu innihaldsefni og þá sérstaklega rotvarnarefni og ilmefni. Þvottaefni skal sérstaklega merkja með upplýsingum um skammtastærðir og fjölda þvottaskammta í pakkningu. Tæmandi listi yfir innihaldsefni skal vera aðgengilegur starfsfólki á sjúkrastofnunum og þá skulu framleiðendur og innflytjendur gefa upp veffang á umbúðum þar sem nálgast má hliðstæðar upplýsingar.
Skammtastærðir þvottaefna eru gefnar upp fyrir þrenns konar hörku vatns. Íslenskir neytendur geta í langflestum tilfellum gengið út frá því að þvottavatn þeirra sé mjúkt eða í lægsta hörkuflokki sem gefinn er upp á umbúðum.
Mynd úr þvottahúsinu. Grafík: Signý Kolbeinsdóttir ©Náttúran.isBirt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Ný reglugerð um þvotta- og hreinsiefni“, Náttúran.is: 9. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/08/ny-reglugero-um-thvotta-og-hreinsiefni/ [Skoðað:30. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 8. september 2008
breytt: 9. september 2008