3 kíló af hvalkjöti flutt út á árinu 2009
Þegar Einar K. Guðfinnsson kynnti ákvörðun sína um að veita kvóta til hvalveiða þann 27. janúar 2009, hélt hann því fram hvalveiðar gætu skilað 5 milljörðum króna í gjaldeyrirstekjur. Á gengi þess dags nam sú upphæð 41 milljón bandaríkjadala.
Útlfutningsverðmæti hvalaafurða frá janúar – nóvember 2009 numu samtals 5.442 ISK eða 0,0001% af þeirri upphæð sem Einar K. Guðfinnsson gerði ráð fyrir þegar hann gaf út kvóta fyrir hvalveiðar. Þrjú kíló seldust úr landi og er kílóverð því 1.814 kr.
Sama og ekkert var því flutt út af hvalaafurðum allt síðasta ár því ekkert var flutt út í desember heldur. Að frátöldum nefndum þremur kílóum.
Niðurstaða blaðamanns Morgunblaðsins er: „Ef marka má þessar upplýsingar [Hagstofu Íslands] hefur ekki gengið vel að selja íslenskt hvalkjöt til útlanda mestan part síðasta árs.” Óhætt að taka undir það.
Viðtali sem vitnað er í („Heimilt að veiða 150 langreiðar“) heyrðist í kvöldfréttum kl. 18:00 í Ríkisútvarpinu, á Rás 1 og 2, þ. 27. janúar 2009. Sjá viðtalið í heild sinni hér að neðan:
Einar K. Guðfinnsson, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, gaf í morgun út reglugerð sem heimilar áframhaldandi hvalveiðar. Heimilt verður að veiða allt að 150 langreyðar.
Með reglugerðinni verður heimilt að veiða um 100-150 hrefnur og álíka margar langreyðar, á grundvelli veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar, segir Einar K. Guðfinnsson, sem brátt lætur af embætti sjávarútvegsráðherra. Veiðiráðgjöf fyrir yfirstandandi fiskveiðiár er væntanleg von bráðar.
Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra: Við hófum þær í atvinnuskyni haustið 2006 og þeim hefur síðan verið haldið áfram varðandi hrefnuna. Það var hins vegar uppstytta í, varðandi langreyðina því að það gekk ekki vel að selja. Salan hins vegar er gengin fyrir sig og það var það sem að menn höfðu svona helst við það að athuga að, að við værum að gefa út kvóta í langreyði og nú er ekkert því til fyrirstöðu og það eru, þessu mun auðvitað fylgja mikil atvinnusköpun og gjaldeyrissköpun og, og þess vegna er þetta eðlileg ákvörðun.
Slegið hefur verið á að hvalveiðar geti skilað allt að 5 milljörðum króna í gjaldeyristekjur, segir Einar. Hann telur sig hafa skýrt umboð til að heimila veiðarnar nú, þó ríkisstjórnin sé fallin og sé aðeins starfsstjórn þar til ný ríkisstjórn tekur við. Hvalveiðar Íslendinga hafa verið harðlega gagnrýndar á alþjóðavettvangi, meðal annars af ráðamönnum í Evrópusambandsríkjunum og Bandaríkjunum. Einar óttast ekki slíka gagnrýni nú.
Einar K. Guðfinnsson: Ég var mjög ásakaður það haustið 2006 að með þessari ákvörðun sem við tókum þá þá væri verið að skaða ímynd Íslands. Þeir sem að gagnrýndu það harðast eru þeir menn sem að fóru mjög illa með okkar ímynd, útrásarvíkingarnir. Þannig að ég held að þetta sýni nú að þetta voru nú ómakleg orð á sínum tíma í minn garð. Heiðar
Örn Sigurfinnson: Þannig að þú telur að, að þessar veiðar muni ekki skaða ímynd Íslands frekar en orðið er?
Einar K.Guðfinnsson: Hina góðu ímynd Íslands, nei.
Myndin sýnir hrefnu. Ljósmynd: Elding hvalaskoðun.
Birt:
Tilvitnun:
Árni Finnsson „3 kíló af hvalkjöti flutt út á árinu 2009“, Náttúran.is: 6. janúar 2010 URL: http://nature.is/d/2010/01/06/3-kilo-af-hvalkjoti-flutt-ut-arinu-2009/ [Skoðað:21. janúar 2025]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 7. janúar 2010