Í gær brá ég mér til höfuðborgarinnar á fyrirlestur Roberts Costanza í Háskóla Íslands, enda tilefnið ærið. Í þessum pistli ætla ég að velta fyrir mér fáeinum atriðum sem komu fram í fyrirlestrinum.

Hver er þessi Róbert?
Ég hygg að á engan sé hallað þótt því sé haldið fram að Robert Costanza sé einn þeirra manna sem hafa haft hvað mest áhrif á umhverfisumræðuna á heimsvísu síðustu tvo áratugi. Þekktastur er hann fyrir útreikninga sína á verðmæti þeirrar þjónustu sem vistkerfi heimsins veita okkur, alveg ókeypis (e: Ecosystem Services). Þeir útreikningar bentu til að verðmæti þessarar þjónustu væri nær tvöfalt hærra en samanlögð þjóðarframleiðsla allra þjóða, eins og hún er venjulega mæld! Um leið gefur þetta vísbendingu um hversu miklu við töpum ef við göngum um of á vistkerfin og skerðum þannig möguleika þeirra á að veita þessa þjónustu.

Hvað er „þjónusta vistkerfa“?
Þegar talað er um þjónustu vistkerfa er átt við hverja þá þjónustu sem vistkerfi heimsins veita okkur, okkur að kostnaðarlausu, svo sem með hreinsun vatns, bindingu koltvísýrings, framleiðslu matvæla, skjóli, flóðavörnum o.s.frv. Nánari skýringar á þessu hugtaki er m.a. að finna í sérstöku upplýsingablaði á vef Umhverfisstofnunar.

Nokkur orð um framtíðina
Fyrirlestur Roberts Costanza í gær bar yfirskriftina Using the global recession as an opportunity to create a sustainable and desirable future, eða Hvernig nýta má heimskreppuna sem tækifæri til að skapa sjálfbæra og ákjósanlega framtíð. Robert hóf þessa umræðu m.a. með því að vitna í orð einhvers manns sem sagði, að ef við næðum ekki að skilja fortíðina, þá værum við dæmd til að endurtaka hana. Mér finnast þessi orð reyndar vera ágæt áminning til þeirra sem eiga sér þá ósk heitasta að árið 2007 komi aftur. Tilfellið er nefnilega, eins og Þorvaldur Örn Árnason benti á í ágætri grein í Mogganum á dögunum, að það var líka kreppa hjá okkur árið 2007. Það var bara öðruvísi kreppa en við glímum við núna! Þessa fortíð vil ég ekki láta dæma okkur til að endurtaka.

Heildarhyggja
Mér fannst kjarninn í boðskap Roberts Costanza vera, að til þess að komast klakklaust inn í framtíðina þurfi að skoða hlutina í samhengi í stað þess að einblína á einstakar lausnir eða einstakar fræðigreinar, eins og mönnum er tamt að gera, enda eru kannski flestir menn sérfræðingar á þröngu sviði, sem „vita allt um ekki neitt“, eins og einhver orðaði það.

Hagfræðingar
Líklega hafa hagfræðingar verið teknir allt of alvarlega í umræðu síðustu ára. Hafi eitthvert verkefni verið talið hagkvæmt út frá hagfræðilegu sjónarmiði, þá hafa menn bara kþlt á það án þess svo mikið sem gera tilraun til að líta á málið í víðara samhengi. Með þessu er ég engan veginn að gera lítið úr hagfræðingum. Þeir eru bráðnauðsynlegur hluti af teyminu sem við þurfum á að halda. Það gengur bara ekki að þeir séu einir í þessu teymi. Reyndar sagði Robert einn hagfræðibrandara í fyrirlestrinum: „Eina fólkið sem hegðar sér eins og hagfræðilíkön gera ráð fyrir, eru hagfræðingar“. (Sjálfur er hann visthagfræðingur, þannig að hann veit alveg hvað klukkan slær).

Verg landsframleiðsla (GDP)
Robert Costanza lagði áherslu á það í fyrirlestrinum hversu takmarkaður mælikvarði „verg landsframleiðsla“ (GDP) væri á velgengni þjóða. Stórslys og aukin glæpatíðni hækka t.d. GDP, enda þótt slíkt sé augljóslega ekki gott fyrir viðkomandi þjóð. Þeir sem nota GDP sem eina mælikvarðann, eins og mönnum hefur reyndar verið tamt að gera, eru í svipaðri stöðu og flugmaður sem flýgur Boing-þotu án þess að líta nokkurn tímann á nokkurn mæli nema hæðarmælinn. Reyndar hafa menn árum saman reynt að finna aðra mælikvarða, sem sátt gæti náðst um. En það verkefni er ekkert auðvelt, enda krefst slík sátt þess að menn brjótist út úr þeim úrelta hugsanagangi sem leitt hefur okkur í þær ógöngur sem við erum nú í. Robert nefndi nokkra slíka mælikvarða í fyrirlestrinum, svo sem Genuine Progress Indicator (GPI), Index of sustainable econmic welfare (ISEW) og Human Development Index (HDI). Þeir sem vilja kynna sér þessa mælikvarða nánar geta auðveldlega nálgast upplýsingar um þá á netinu.

Ferns konar auður
Til að komast áleiðis inn í framtíðina verðum við að átta okkur á því að það er ekki nóg að eiga fjárhagslegar innstæður. Robert Costanza talaði í fyrirlestrinum um ferns konar auð, sem er nauðsynlegur til að halda uppi mannvænu hagkerfi, (hér verð ég að biðjast velvirðingar á fátæklegum þýðingum mínum):

Byggður auður (e: Built capital)
Mannauður (e: Human capital)
Félagsauður (e. Social capital)
Náttúruauður (e. Natural capital)
Þegar dæmið er reiknað og lagt á ráðin um hvert halda skuli, verðum við að taka allar þessar tegundir auðs með í reikninginn. Við megum t.d. ekki telja okkur afrakstur náttúrunnar til tekna ef hann er umfram það sem náttúran þolir, því að þá erum við farin að ganga á innstæðuna. Og það er heldur ekkert víst að hægt sé að skipta einni tegund af höfuðstól út fyrir aðra.

Í grein Roberts Costanza frá árinu 2006, The Real Economy, er að finna ágæta umræðu um þetta.

Hvað á Ísland að gera?
Eins og í öllum svona fyrirlestrum fékk fyrirlesarinn náttúrulega spurningar úr sal um það hvað Íslendingar ættu til bragðs að taka. Þó að við svoleiðis spurningum sé aldrei til neitt eitt einfalt og rétt svar, þá gerði Robert sitt besta til að benda á leiðir. Hann ráðlagði Íslendingum sem sagt að setja í gang ferli til að búa til sameiginlega framtíðarsýn fyrir landið. Í þessu ferli þyrftu allir landsmenn að taka þátt. Spurningin sem hver og einn þyrfti að svara væri þessi: „Hvernig vilt þú að Ísland verði eftir (t.d.) 20 ár“? Í þessu sambandi hvatti hann til að við kynntum okkur svipað ferli sem nú væri í gangi á Nýja-Sjálandi. Hann benti líka á að lýðræði væri sniðugt fyrirbæri, sem við ættum endilega að nota. :)

Vendipunkturinn
Robert bað fundargesti að giska á hversu stórt hlutfall Bandaríkjamanna væru orðnir það sem kallað er „Cultural creators“, þ.e.a.s. fólk sem er tilbúið að taka virkan þátt í að skapa nýja og betri framtíð. Einhver giskaði á 5%. Hið rétta er að rannsóknir benda til að nú megi flokka um 30% Bandaríkjamanna í þennan flokk. Robert benti á að e.t.v. værum við að nálgast einhvern vendipunkt, sem verður um leið og nægjanlega stór hluti einhvers hóps hefur tileinkað sér nýjan hugsunarhátt. Útilokað sé að spá fyrir um hvenær slík umskipti verði. Þannig virtist Berlínarmúrinn falla á einni nóttu, en í raun höfðu forsendurnar orðið til smátt og smátt, steiný egjandi og hljóðalaust, þangað til vendipunktinum var allt í einu náð. Á sama hátt gætu stórar breytingar verið í nánd hvað varðar lífsstíl og áherslur almennings.

„Solution“
Robert Costanza fer fyrir hópi manna sem er að undirbúa útgáfu á nýju alþjóðlegu tímariti um sjálfbæra og ákjósanlega framtíð. Tímaritið hefur fengið nafnið „Solution“, og fengu fundarmenn einmitt að skoða fyrsta sýniseintakið af því í gær. Robert verður sem sagt aðalritstjóri, en með honum í liði eru nokkrir af kunnustu höfundum samtímans á sviði umhverfismála. Þar má m.a. nefna aðstoðarritstjórann Paul Hawken, sem heimsótti Ísland síðasta vetur (sjá bloggfærslu mína frá 14. des. 2008) og ritstjórnarmennina Lester Brown, Herman Daly, Tom Lovejoy og Hunter Lovins. Mér er til efs að nokkurn tímann hafi jafn margir framherjar í umhverfisgeiranum sameinað krafta sína. Hægt er að fylgjast með tilurð tímaritsins á http://www.thesolutionsjournal.com.

Lokaorð
Hér læt ég staðar numið í þessari sundurlausu samantekt. Ég vil undirstrika það, að þetta er alls engin endursögn af fyrirlestri Roberts, heldur hef ég gripið niður hér og þar og blandað eigin vangaveltum saman við. Hafi einhver fræðst við lesturinn er tilganginum náð.

Ung amerísk kona, sem var stödd á fyrirlestrinum í gær, lagði til að við myndum hætta að einblína á ýmis mistök sem aðrir hefðu vissulega gert, og átta okkur þess í stað á því að við stöndum frammi fyrir sameiginlegu verkefni sem við þurfum öll að eiga þátt í að leysa. Það er nefnilega þannig, að það eru ekki bara einhverjir tilteknir aðilar í samfélaginu sem eiga að taka fyrsta skrefið, heldur þurfa allir aðilar að vinna samtímis. Við eigum t.d. ekkert endilega að bíða eftir því að stjórnvöld geri eitthvað, að atvinnulífið geri eitthvað, að skólakerfið geri eitthvað, eða yfirhöfuð að einhver annar geri eitthvað. Viðfangsefnið er hér og nú - og ég þarf strax að gera það sem ég get til að leysa úr því, um leið og allir hinir gera sitt besta. Biðin er á enda!

(PS: Ég held að Robert Costanza verði í Kastljósi RÚV í kvöld [27.08.09])

Efri myndin er af Robert Constanza í púlti við flutning fyrirlestur síns í Háskóla íslands í gær. Sú neðri er af hluta áhorfendahópsins en um 200 manns sóttu fundinn. Ljósmyndir: Einar Bergmundur.

Birt:
27. ágúst 2009
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Hvað sagði Robert Costanza í gær?“, Náttúran.is: 27. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/27/hvao-sagoi-robert-costanza-i-gaer/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: