Fulltrúar á Loftslagsráðstefnunni í Kaupmannahöfn samþykktu lokayfirlýsingu ráðstefnunnar á tíunda tímanum í morgun.

Ekki er enn ljóst hvort einhver ríki og þá hve mörg undirriti hana með fyrirvara. Hlé var gert á ráðstefnunni rétt fyrir klukkan níu í morgun að kröfu Breta.   Áður en Bretar báðu um hlé hafði Lars Lökke Rasmussen forsætisráðherra Danmerkur, sem stjórnar ráðstefnunni, tilkynnt að ekki væri samkomulag um lokatextann sem gert er ráð fyrir að allir samþykki og undirriti.

Ed Miliband, umhverfisráðherra Bretlands, hafði lagt til að fulltrúar ríkja sem væru andsnúin lokatextanum gætu bókað athugasemdir með undirritun og nú virðist sem samkomulag hafi náðst um að svo verði.

Ráðstefnugestir ræddu í alla nótt samkomulag sem Barack Obama Bandaríkjaforseti og fulltrúar Kína, Indlands, Brasilíu og  Suður Afríku náðu í gærkvöldi.  Obama sagði að þeim fundi loknum að samkomulagið væri merkilegt en viðurkenndi um leið að það gengi ekki nægilega langt til að stemma stigu við hlýnun jarðar.

Mörgum fulltrúum fátækari ríkja finnst lítið til þess koma og hafa harðlega gagnrýnt það.

Samkomulagið felur í sér skuldbindingu um að andrúmsloft jarðar hlýni ekki meira en um tvær gráður.  Ekki er hinsvegar tilgreint hvernig ná eigi því markmiði.

Margir ráðstefnufulltrúar voru harðorðir í nótt og fulltrúi Súdans sagði samkomulagið jafngilda því að Afríkubúar yrðu brenndir, líkt og gyðingar í helförinni.  Mörgum  fulltrúum á ráðstefnunni ofbauð þetta orðalag.  Ekki er ljóst hvenær ráðstefnunni lýkur.

Mynd af Ban Ki-moon af www.cop15.dk.

Birt:
19. desember 2009
Höfundur:
Ríkisútvarpið
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið „Lokayfirlýsing ráðstefnu samþykkt“, Náttúran.is: 19. desember 2009 URL: http://nature.is/d/2009/12/19/lokayfirlysing-raostefnu-samthykkt/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: