Ísland er eitt af fjórum ríkjum sem taka þátt í átaki á vegum Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) um að stefna að kolefnishlutleysi. Átakinu var hleypt af stokkunum á ráðherrafundi UNEP í Mónakó í dag. Þórunn Sveinbjarnardóttir umhverfisráðherra sagði við það tækifæri að þótt loftslagsbreytingar væru alvarleg ógn væri mikilvægt að ganga bjartsýn til verks við að finna lausn á vandanum. Það kallaði á nýsköpun og tækniþróun. Tilgangur átaksins er að vekja athygli á dæmum um góðar lausnir á sviði loftslagsmála og efla metnað hjá ríkjum, fyrirtækjum og öðrum til að ,,afkola" starfsemi sína.

Stofnríki átaksins eru Ísland, Costa Rica, Noregur og Nýja-Sjáland. Einnig taka þátt í því fjórar borgir og fimm fyrirtæki, sem stefna að því að verða kolefnishlutlaus. Auk ríkja, borga og fyrirtækja mun alþjóðasamtökum, félagasamtökum og jafnvel einstaklingum standa til boða að skrá sig í átakið í framtíðinni.

Með ,,afkolun" og ,,kolefnishlutleysi" er átt við að starfsemi hafi ekki í för með sér nettólosun á koltvísýringi og öðrum gróðurhúsalofttegundum, sem valda hlýnun jarðar og loftslagsbreytingum.

Upplýsingum um aðila sem stefna í átt til kolefnishlutleysis verður safnað saman á heimasíðu átaksins á slóðinni www.climateneutral.unep.org.

Umhverfisráðherra sagði í ávarpi sínu í dag að Ísland teldi sig eiga heima í framvarðasveit ríkja í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Að hluta til stafaði það af árangri sem náðst hefði nú þegar, þar sem öll rafmagnsframleiðsla og húshitun væri með endurnýjanlegum orkugjöfum. Árangur hefði náðst á fleiri sviðum, en mikið verk væri þó framundan við að afkola alla þætti samfélagsins, til dæmis væri mikil losun frá samgöngum. Það væri spennandi verk að halda áfram á leiðinni til kolefnishlutleysis; Ísland gæti lært margt af öðrum, á sama hátt og Ísland reyndi af miðla af reynslu sinni, til að mynda á sviði jarðhitanýtingar.

Achim Steiner, framkvæmdastjóri UNEP, sagði í dag að kolefnishlutleysi væri hugmynd sem hrinda ætti í veruleika nú, til að bregðast við loftslagsvánni en einnig til að skapa efnahagsleg tækifæri sem myndu verða til hjá þeim sem feta braut grænnar efnahagsstarfsemi. Átakinu væri ætlað að styðja við alþjóðlegar samningaviðræður í kjölfar Balí-fundarins um loftslagsmál í lok síðasta árs og byggja upp trú á að hægt væri að ná árangri með áþreifanlegum dæmum um afkolun.

Fjölmiðlum er frjálst að nota meðfylgjandi mynd af Þórunn Sveinbjarnardóttur umhverfisráðherra sem var tekin þegar átaki UNEP var hleypt af stokkunum í Mónakó í dag. Henni á hægri hönd er Erik Solheim, umhverfisráðherra Noregs, og Achim Steiner, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna.
Birt:
21. febrúar 2008
Tilvitnun:
Guðmundur Hörður Guðmundsson „Ísland í framvarðasveit Sameinuðu þjóðanna í kolefnisjöfnun“, Náttúran.is: 21. febrúar 2008 URL: http://nature.is/d/2008/02/21/island-i-framvaroasveit-sameinuou-thjooanna-i-kole/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: