Opnað hefur verið fyrir skráningu á sjöundu alþjóðlegu EcoProcura ráðstefnuna um vistvæn innkaup en hún verður haldin í Reykjavík 25.–27. mars 2009. „Markmið ráðstefnunnar er að skapa vettvang fyrir skoðanaskipti um vistvæn innkaup, auk þess sem athyglinni verður beint að hlut vistvænna innkaupa í baráttunni gegn hlýnun jarðar, “ segir Eygerður Margrétardóttir framkvæmdastýra Staðardagskrár 21 hjá Reykjavíkurborg.

Reykjavíkurborg og ICLEI, alþjóðleg samtök sveitarstjórna um sjálfbærni, standa fyrir ráðstefnunni. „Við viljum leiða saman sérfræðinga, fræðimenn og fólk í viðskiptalífinu en mikilvægt er að þetta fólk geti borið saman reynslu, aðferðir, vörur, þjónustu og tækni er varða vistvæn innkaup,“ segir Eygerður og vonar að ráðstefnan muni jafnframt vekja athygli á því starfi sem unnið er í umhverfismálum hérlendis á vegum sveitarfélaga, fyrirtækja og stofnanna. 

Vonast er til þess að ráðstefnan veki umræðu um vistvæn innkaup á Íslandi, hvetji til innleiðingu þeirra og auki framboð á visthæfum vörum og þjónustu. Vistvæn innkaup snúast um það að velja vörur og þjónustu sem síður eru skaðleg umhverfinu og eru um leið þáttur í því að lágmarka óæskileg áhrif neyslusamfélagsins á umhverfið. „Það hefur til að mynda áhrif til góðs að velja og kaupa vörur sem hafa vistvæna vottun,“ segir Eygerður og að möguleikarnir séu meiri núna en fyrir nokkrum árum. „Fólk hefur áttað sig á að það getur haft jákvæð áhrif á umhverfismálin með siðrænni neyslu sinni,“ segir hún og að neyslan og innkaupin hafi ekki aðeins áhrif á umhverfið heldur einnig á efnahagsmálin og samfélagið.

Sjá nánar um ráðstefnuna.
Frekari upplýsingar veitir Eygerður Margrétardóttir í síma: 693 2302
Birt:
22. janúar 2009
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „EcoProcura - ráðstefna um vistvæn innkaup í Reykjavík“, Náttúran.is: 22. janúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/01/22/ecoprocura-raostefna-um-vistvaen-innkaup-i-reykjav/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: