Krafa Félags um verndun hálendis Austurlands skýr - Ekkert óháð mat, ekker vatn í lónið
-
Félag um verndun hálendis Austurlandss hefur lengi barist fyrir verndun hálendisins. Nú berst það einnig fyrir öryggi og heill íbúanna. Þess er krafist að óháð matsnefnd meti áhættu og arðsemi Kárahnjúkavirkjunar og fyrr verði engu vatni hleypt á Hálslón.
-
Við viljum að fólk geti vegið og metið af skynsemi hvort ekki sé heillavænlegast að eiga víðernin og vistkerfin áfram og þar með að eyða þeirri ógn sem af Kárahnjúkavirkjun stafar í byggð. Minnumst þess að framtíðarland og auðlindir komandi kynslóða eru í húfi.
-
Í því skyni stendur félagið fyrir blaðaauglýsingum með einföldum texta og undirskriftum margra einstaklinga, eins margra og í næst.Við hvetjum þig því til að leggja þitt af mörkum með því að skrá þig á undirskrift@kjosa.is og vera með í auglýsingunum. Þá er æskilegt að miðla þessu bréfi til hugsanlegra stuðningsmanna.
Í skeytinu þurfa að vera nafn og titill sem koma eiga fram í auglýsingunni auk nafns greiðanda ef það annað en þitt eigið. Einnig þarft þú að leggja inn 1000 kr. á bankareikning félagsins 0305-13-339 c/o Þorsteinn Bergsson gjaldkeri kt. 270664-5719
Viljir þú ganga í Félag um verndun hálendis Austurlands getur þú sent skráningu á netfangið felagi@kjosa.is
Fyrirsagnir verða mismunandi í auglýsingum en megintextinn verður þessi:
Á undanförnum árum hafa þrír gagnmerkir íslenskir jarðfræðingar lýst áhyggjum sínum af stíflustæðum og öryggi Kárahnjúkavirkjunar; Guðmundur E. Sigvaldason jarðefnafræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Norrænu eldfjallastöðvarinnar; Grímur Björnsson jarðeðlisfræðingur hjá Orkuveitu Reykjavíkur og síðast Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur og prófessor við Rhode Island háskóla í Bandaríkjunum sem lagði til að óháð nefnd gerði nýtt áhættumat eftir að hafa skoðað sprunguskýrslu Kristjáns Sæmundssonar og Hauks Jóhannessonar (nóv. 2005). Þessi skýrsla hefur hvorki verið kynnt né rædd á Alþingi Íslendinga og er þó ítarlegasta og alvarlegasta rannsóknarskýrsla sem til er um eðli og gerð berggrunns við Kárahnjúka.
Aldrei í heiminum hefur svo stór stífla verið reist á jafn viðkvæmri undirstöðu. Landið er á virku belti, jarðhiti er á svæðinu og líklegt að háhiti hafi verið þar á nútíma. Berglög eru sprungin og misgengin og vís til að hreyfast þegar vatn og farg þrýsta á þunna jarðskorpuna.
Við teljum áhyggjur þessara virtu jarðvísindamanna af öryggi stíflumannvirkja svo alvarlegar að nauðsyn beri til að óháðir aðilar grandskoði framkvæmdina frá jarðfræðilegu sjónarhorni. Komi til válegra atburða við Kárahnjúka eru almennir borgarar í hættu.
Við höfum áhyggjur af lýðræði á Íslandi. Í ljósi þess að almenningur ber fjárhagslega ábyrgð á verkinu er eðlilegt að hann fái tækifæri til að kynna sér vandlega þessa risaframkvæmd í heild og fái að vita ótvírætt hver áhættan er.
Við tökum undir með Haraldi Sigurðssyni prófessor og náttúruverndarsamtökum um allt land og krefjumst þess að fram fari óháð áhættumat á mannvirkjum Kárahnjúkavirkjunar nú þegar. Við krefjumst þess einnig að unnið verði nýtt, óháð arðsemismat þar sem öll spil eru lögð á borð, þar með raforkuverð og kostnaðarauki vegna vanræktra rannsókna. Við krefjumst þess að Alþingi Íslendinga verði kallað saman til að fresta fyllingu Hálslóns þar til þessi úttekt lítur dagsins ljós.
Fyrr getum við hvorki sofið né vakað áhyggjulaus.
Myndin er tekin af skilti Landsvirkjunar um framkvæmdasvæði Kárahnjúkavirkjunar þ. 22.08.2006.
Ljósmyn: Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Krafa Félags um verndun hálendis Austurlands skýr - Ekkert óháð mat, ekker vatn í lónið“, Náttúran.is: 16. september 2006 URL: http://nature.is/d/2007/03/19/krafa_felags_verndun/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 19. mars 2007
breytt: 11. maí 2007