Ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum í morgun að veita 40 milljónum til styrkingar gróðurs á þeim svæðum þar sem mikið öskufall varð í eldgosinu í Grímsvötnum í vor. Markmiðið með verkefninu er að hefta öskufok á þessum svæðum á næstu misserum.

Þrátt fyrir að veður og vindar hafi verið hagstæðir og feykt töluverðri ösku á haf út í kjölfar gossins er enn töluverð aska á öskufallssvæðunum sem sest hefur til á jörðinni eftir rigningar. Gera má ráð fyrir því að þessi aska fjúki upp þegar þornar og hvessir.

Reynslan frá gosinu í Eyjafjallajökli sýnir að draga má verulega úr öskufokshættu með styrkingu gróðurs í byggð. Þetta er ekki síst brýnt í Fljótshverfi austan við Kirkjubæjarklaustur þar sem mesta askan féll, en íbúar þar mega búast við reglulegu öskufoki næstu mánuði og misseri verði ekkert að gert. Sömuleiðis skapar öskufokið slysahættu á hringveginum á þessu svæði.

Því hefur Landgræðslan lagt til að gripið verði strax til aðgerða til að draga úr öskufokinu sem fælust í sáningu, áburðargjöf og annars konar gróðurstyrkingu.

Til viðbótar við 40 milljóna króna fjárveitingu ríkisstjórnarinnar áætlar Landgræðslan að verja 7,5 milljónum króna til viðbótar til verkefnisins með nýrri forgangsröðun verkefna hjá stofnuninni.

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra segir þetta gríðarlega mikilvægt skref í þágu þeirra sem búa á áhrifasvæði eldgossins í Grímsvötnum og væntir þess að Landgræðslan sinni þessum mikilvægu verkefnum í góðu samstarfi við íbúa á svæðinu. Ráðherra telur brýnt að stjórnvöld bregðist hratt og örugglega við þegar um áföll af þessu tagi sé að ræða og því sé þetta verkefni í algjörum forgangi.

Ljósmynd: Hvönn vex upp úr gjósku undir Eyjafjöllum. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
10. júní 2011
Tilvitnun:
Bergþóra Njála Guðmundsdóttir „Aðgerðir til að styrkja gróður á öskufallssvæðum“, Náttúran.is: 10. júní 2011 URL: http://nature.is/d/2011/06/10/adgerdir-til-ad-styrkja-grodur-oskufallssvaedum/ [Skoðað:21. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: