Síðustu daga hafa hægar austlægar áttir verið ríkjandi á höfuðborgarsvæðinu. Því hefur fylgt viðvarandi lykt af brennisteinsvetni (H2S). Mánudagurinn 2. febrúar var metdagur á loftgæðamælistöðvunum við Grensásveg í Reykjavík og Álalind í Kópavogi. Við Álalind mældist sólahringsmeðaltal brennisteinsvetnis jafn hátt og heilsuverndarviðmið WHO (Alþjóða heilbrigðismálastofnunin) eða 150µg/m3. Sólahringsmeðaltal brennisteinsvetnis hefur aldrei fyrr mælst við þessi mörk í byggð á höfuðborgarsvæðinu. Ekki þarf að óttast bráðaáhrif af þessum styrk en þó skal hér tilgreint að langtímaáhrif brennisteinsvetnis í lágum styrk á heilsu fólks eru ekki vel rannsökuð. Þegar brennisteinsvetni mælist í þessum styrk er mögulegt að fólk sem býr nær upptökum mengunarinnar og er viðkvæmt fyrir brennisteinsvetni geti fundið fyrir höfuðverk og ógleði. Nær virkjunarsvæðinu má búast við meiri styrk sem þá getur haft áhrif á heilsu manna.

Unnið er að uppsetningu fleiri mælistöðva sem mæla brennisteinsvetni, meðal annars á virkjanasvæðinu, í Norðlingaholti og Hveragerði.

Einnig er hafin á Umhverfisstofnun vinna við að setja umhverfismörk fyrir brennisteinsvetni en fram til þessa hafa einungis vinnuverndarmörk verið til staðar í íslenskum reglugerðum.

Umhverfisstofnun hefur haft samband við Heilbrigðiseftirlit Suðurlands og Orkuveituna vegna málsins.

Sjá viðbótarupplýsingar á vef Umhverfisstofnunar.

Orkuveita Reykjavíkur brást fljótt við fréttatilkynningu Umhverfisstofnunar og sendi út eftirfarandi fréttatilkynningu:

Unnið að hreinsun hveralyktar frá Hellisheiði
 
Orkuveita Reykjavíkur hefur unnið að því um hríð að hefja hreinsun hveralyktar úr gufunni, sem kemur frá virkjun fyrirtækisins á Hellisheiði. Lyktinni veldur brennisteinsvetni og í vor mun hefjast blöndun þess við niðurrennslisvatn frá virkjuninni, þannig að því verður veitt niður í jarðhitageyminn, þaðan sem það kom upphaflega. Þá hefur því verið lýst yfir, í tengslum við umhverfismat áformaðra virkjana, að hveralykt frá þeim verði hreinsuð frá upphafi reksturs.
Orkuveita Reykjavíkur fagnar því að sífellt betur er fylgst með styrk hveralyktarinnar og á fyrirtækið þátt í auknum og útbreiddari mælingum. Hinn langvinni kafli hægra austanátta í talsverðum frostum olli hinum háa styrk síðustu daga. Slíkar aðstæður eru fremur fátíðar.
Orkuveita Reykjavíkur mun hér eftir sem hingað leggja sitt af mörkum til góðs samstarfs við eftirlitsaðila á sviði umhverfismála og heilbrigðiseftirlits.

Mynd af vef Umhverfisstofnunar.

Birt:
6. febrúar 2009
Höfundur:
Umhverfisstofnun
Uppruni:
Umhverfisstofnun
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Brennisteinsvetni á höfuðborgarsvæðinu nær heilsuverndarviðmiðum WHO“, Náttúran.is: 6. febrúar 2009 URL: http://nature.is/d/2009/02/06/brennisteinsvetni-hofuoborgarsvaeoinu-naer-heilsuv/ [Skoðað:23. nóvember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: