Farfuglaheimilin í Reykjavík fengu Svansvottun í dag
Farfuglaheimilunum í Laugardal og við Vesturgötu var í dag veitt vottun norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Strangar kröfur Svansins tryggja að starfsemi farfuglaheimilanna er í fremstu röð hvað varðar lágmörkun neikvæðra umhverfis- og heilsuáhrifa. Umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, veitti leyfið. Leyfisveitingin fór fram í sal Farfuglaheimilisins í Laugardal að Sundlaugavegi 34.
„Farfuglaheimilin hafa lengi verið í fararbroddi í umhverfismálum hér á landi og er vottun í dag staðfesting þess árangurs sem hefur náðst. Það er ánægjulegt að sjá að stöðugt fjölgar í hópi Svansleyfa, enda eru Svansleyfin á Íslandi orðin sjö talsins, auk þess sem 12 aðrar umsóknir hafa borist Umhverfisstofnun“ segir Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra.
“Það er krafa frá ferðamönnum að geta valið þjónustu frá fyrirtækjum sem gera betur í umhverfismálum. Farfuglaheimilin í Reykjavík vinna af heilum hug að því að mæta þeim kröfum og eftir dvöl þar eru gestirnir betur upplýstir um leiðir til að draga úr áhrifum á umhverfið. Gildi þjálfunar og símenntunar fyrir starfsfólki er einnig verðmætur þáttur í umhverfisstarfinu. Um leið er þetta rekstrarlega hagkvæmt en fyrst og fremst siðferðislega rétt“ segir Sigríður Ólafsdóttir, rekstrarstjóri Farfuglaheimilanna í Reykjavík.
Um Farfuglaheimilin:
Farfuglar birtu umhverfisstefnu sína árið 1999 og hafa því verið leiðandi í umhverfisstarfi í ferðaþjónustu á Íslandi í meira en áratug. Alls eru 36 farfuglaheimili á landinu, en það eru Farfuglaheimilin í Reykjavík, nánar sagt í Laugardal og Vesturgötu sem fá vottun Svansins á starfsemina.
Farfuglaheimilið í Laugardal hlaut Svansvottun í fyrsta sinn árið 2004 og því er um endurnýjun leyfis að ræða nú. Heimilið hefur m.a. lagt áherslu á umhverfisfræðslu og hvatt gesti til að taka þátt í umhverfisstarfi á ferðalögum sínum. Í Laugardal er gistiþjónusta fyrir 180 gesti.
Farfuglaheimilið við Vesturgötu opnaði á vormánuðum 2009 í húsnæði sem rúmar 70 gesti. Frá opnun hefur Farfuglaheimilið unnið markvisst að því að takmarka áhrif rekstursins á umhverfið og það hlýtur nú Svansvottun um ári eftir opnun heimilisins.
Kröfur Svansins fyrir hótel og farfuglaheimili eru mjög strangar og þarf hótelið að vera með gott heildaryfirlit yfir umhverfisáhrif starfseminnar:
- Lágmarka þarf efnanotkun auk þess sem meirihluti efna sem notuð eru við ræstingar, uppvask og þvott þurfa að vera umhverfismerkt.
- Hvatt er til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa og lágmörkun orku- og vatnsnotkunar.
- Lögð er áhersla á að velja sem mest af umhverfismerktar vörum og þjónustu í innkaupum.
- Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að stýra umhverfisstarfinu.
- Flokkun úrgangs skal að vera góð og tryggja ber að allur hættulegur úrgangur fái rétta meðhöndlun
Ljósmynd: Við afhendingu Svansleyfis Farfuglaheimilanna í dag. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, Vita Stale umhverfisfulltrúi , Sigríður Ólafsdóttir rekstrarstjóri Farfuglaheimilanna í Reykjavík, Stefán Haraldsson stjórnarformaður Farfugla, Rafal Ziolkowski umsjónarmaður fasteigna
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisstofnun „Farfuglaheimilin í Reykjavík fengu Svansvottun í dag“, Náttúran.is: 6. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/06/farfuglaheimilin-i-reykjavik-fengu-svansvottun-i-d/ [Skoðað:21. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 24. október 2010