Orð dagsins 18. júní 2008

Þing Evrópusambandsins (ESB) samþykkti í gær ný markmið í úrgangsmálum í þeim tilgangi að draga úr urðun úrgangs og tilheyrandi losun gróðurhúsalofttegunda. Samkvæmt þessu á endurnýtingar- og endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs að vera komið upp í 50% fyrir árið 2020. Sama hlutfall fyrir byggingarúrgang á að verða 70% fyrir sama tíma. Samþykktin öðlast þó ekki lagalegt gildi fyrr en öll aðildarríkin hafa staðfest hana.

Gagnrýnendur draga í efa að samþykkt þingsins skili tilætluðum árangri, þar sem hún stuðli ekki að því að minni úrgangur myndist. Í löndum ESB falla árlega til um 1,8 milljarðar tonna af úrgangi, eða um 3,5 tonn á hvert mannsbarn. Innan við þriðjungur þessa magns er endurunninn. Í Ungverjalandi er endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs t.d. aðeins um 2%, í einstökum borgarhlutum Lundúna er hlutfallið 13%, en í Danmörku og Hollandi heyrir urðun nánast sögunni til.
Lesið frétt PlanetArk/Reuter í dag 

Birt:
18. júní 2008
Höfundur:
Stefán Gíslason
Tilvitnun:
Stefán Gíslason „Endurvinnsluhlutfall heimilisúrgangs verði komið í 50% árið 2020“, Náttúran.is: 18. júní 2008 URL: http://nature.is/d/2008/06/18/endurvinnsluhlutfall-heimilisurgangs-veroi-komio-i/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: