Framtíðarorka heitir nýstofnað fyrirtæki í eigu 15 aðila. Fyrirtækið mun vinna að því að finna og innleiða vistvænar lausnir í samgöngumálum á Íslandi. Að sögn Teits Þorkelssonar framkvæmdastjóra félagsins hefur hingað til ekki verið stigið nógu ákveðið niður í þessum málum og t.a.m. sé vöntun á fleiri metanáfyllingarstöðvum svo metanbílar geti orðið fleiri og eins nefndi Teitur að t.d. væru menn í Svíþjóð komnir langt í notkun á visthæfu eldseyti. Við gætum og ættum að feta í þau fótspor og taka til hendinni.

2000 lítrar af vínanda, etanóli eru á leið til landsins. Eldsneytið er ætlað á fyrstu etanólbílana sem kynntir voru í gær. Óvíst er hve mikinn toll þarf að greiða af etanól-bílum og eldsneyti í framtíðinni. Volvo framleiðir bílinn, sem nefnist C-30 Flexifuel. Hann getur ekið á etanólblöndu sem framleidd er úr sykurreyr og korni. Fáist ekki etanól má aka bílnum á venjulegu bensíni. Olís flytur inn 2 þúsund lítra af etanóli, eða vínanda, fyrir Brimborg. Etanólið verður þó ódrykkjahæft því það er blandað bensíni.

Við sama tækifæri var kynnt ráðstefna um vistvænar lausnir í samgöngum sem haldin verður í næsta mánuði. Þar munu sérfræðingar frá 6 löndum fjalla um möguleika á að nota etanól, metan, vetni og rafmagn sem visthæft eldsneyti. Þá verður haldin samkeppni á vegum Verkfræðistofnunar Háskóla Íslands og Orkuveitunnar um vistvænasta bílinn.
Reykjavíkurborg er einn af bakhjörlum ráðstefnunnar. Sjá nánar á vefnum driving.is .

Grafík: Signý Kolbeinsdótir og Guðrún Tryggvadóttir.
Birt:
20. ágúst 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Framtíðarorkan er vistvæn“, Náttúran.is: 20. ágúst 2007 URL: http://nature.is/d/2007/08/20/etanl-eldsneyti-lei-til-slands/ [Skoðað:27. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. september 2010

Skilaboð: