Aðalfundur Landverndar hvetur stjórnvöld til að grípa til nauðsynlegra aðgerða til þess að fyrirbyggja hugsanleg mengunarslys vegna stórskipaumferðar við Ísland.
Skilgreina þarf siglingaleiðir og sjá til þess að dráttarskip séu til taks á Íslandi.

Dráttarskip
Brýnt er að öflug dráttarskip verði fengið hingað til lands án tafar og séu ávallt til taks til þess að bregðast við til að koma í veg fyrir hugsanleg mengunarslys vegna skipa á hafsvæðinu umhverfis Ísland og við strendur landsins.

Siglingaleiðir
Skilgreina þarf siglingaleiðir fyrir stórskipaumferð þannig að líkum á mengunarslysum sé haldið í lágmarki. Gildir það jafnt sunnan lands, þar sem siglingaleiðir hafa löngum verið allt of nálægt landi, sem og norðan lands þar sem líkur eru á að umferð stórskipa eigi eftir að aukast, sbr. t.d. hugmyndir norðmanna um að flytja jarðgas til Bandaríkjanna. Greinargerð:
Skipaumferð við strendur landsins hefur aukist til muna undanfarið og spáð er enn aukinni umferð í framtíðinni. Jafnframt eru skipin stærri nú en áður. Sem stendur eiga Íslendingar ekkert dráttarskip sem komið getur til aðstoðar ef stórt skip verður vélarvana eða lendir í öðrum vandræðum undan ströndum landsins. Ef illa fer gæti hlotist mikið mengunartjón af þessum sökum með langvarandi skaða fyrir lífríki og sjávarútveg.

Á lok síðasta árs 2006 sigldi flutningaskipið Wilson Muuga upp í fjöru við Hvalsnes og var dregið á flot fjórum mánuðum seinna. Árið 2004 strandaði fjölveiðiskipið Baldvin Þorsteinsson við suðurströndina og var í marga daga tvísýnt um björgun þess.
Sem betur fer tókst að losa skipið en það var einungis með aðstoð dráttarbáts sem kalla þurfti til frá Noregi. Hér hefði tíminn sem leið þar til aðstoð barst getað skipt sköpum, sérstaklega ef veðurskilyrði hefðu verið óhagstæðari en raunin varð. Við þetta tilefni voru Íslendingar þó óþægilega minntir á þá áhættu sem til staðar er og hvað gerst getur í þessum efnum.

Fyrir liggur að nú mun skipaumferð aukast undan Austfjörðum sökum Fjarðaráls og jafnframt hafa fréttir borist um að Norðmenn hyggist hefja reglulega skipaflutninga á fljótandi jarðgasi frá Noregi til Bandaríkjanna og að þau skip muni sigla framhjá Íslandi. Þetta mun enn auka skipaumferð og því virðist enn meiri ástæða til að vinna áhættumat í tengslum við þessa og aðra skipaflutninga, og tryggja í framhaldi stöðuga viðveru öflugs dráttarskipa hér við land í því skyni að lágmarka þá mengunaráhættu sem af þessari skipaumferð hlýst.
Birt:
6. maí 2007
Höfundur:
Landvernd
Tilvitnun:
Landvernd „Ályktun um ráðstafanir vegna stórskipaumferðar við Ísland - Landvernd“, Náttúran.is: 6. maí 2007 URL: http://nature.is/d/2007/05/06/lyktun-um-rstafanir-vegna-strskipaumferar-vi-sland/ [Skoðað:21. janúar 2025]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 11. maí 2007

Skilaboð: