Hvalaskoðunarsamtök Íslands og Félag hrefnuveiðimanna eru afar ósátt við tillögur Hafró um afmörkun svæða fyrir hvalaskoðun sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið kynnti á vef sínum í gær. Rannveig Grétarsdóttir, einn af forystumönnum Hvalaskoðunarsamtakanna og framkvæmdastjóri Eldingar, segir svæðin allt of lítil og að ef farið verði að þessum tillögum muni hvalaskoðun leggjast af hér á landi innan fárra ára.

Í tilkynningu sem samtökin sendu frá sér segir: "Tillagan ber þess ríkulega merki að Hafró hefur frá upphafi verið málpípa hvalveiðimanna og hvalveiðistefnu stjórnvalda hverju sinni." Rannveig segir að samtökin hafi sent Steingrími J. Sigfússyni sjávarútvegsráðherra bréf þar sem þau krefjist þess að ræða þessi mál við hann áður en endanleg ákvörðun verði tekin.

Gunnar Bergmann Jónsson, formaður Félags hrefnuveiðimanna, segir tillögur Hafró ganga allt of langt í því að friða ákveðin svæði. Enn fremur segir hann að ekkert bendi til þess að hvalveiðar hafi neikvæð áhrif á hvalaskoðun. "Þau griðlönd sem útbúin eru á helstu veiðisvæðum hrefnuveiðimanna í Faxaflóa og Skjálfanda eru einnig út úr öllu korti, og hafna hrefnuveiðimenn alfarið þeirri nálgun," segir í tilkynningu frá honum. Hann segir einnig að hvalaskoðunarfyrirtækin hérlendis hafi ekki sýnt vilja til að koma á samvinnu við hvalveiðimenn.

Hverju svarar Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunarinnar, gagnrýni Hvalaskoðunarsamtakanna? "Auðvitað hefur Hafrannsóknastofnunin litið á hvali sem hverja aðra endurnýjanlega auðlind og við höfum lagt til aflamark við þessa stofan líkt og aðra nytjastofna. En við gengum til þessarar vinnu [að afmarka svæðin] á faglegum forsendum og reyndum að finna lausn byggða á staðreyndum og sanngirni sem allir gætu sætt sig við." Hann segir enn fremur allt benda til þess að veiðar utan svæðanna muni hafa afar lítil áhrif á hvalaskoðun innan þeirra. Svo verði veiðum dreift eftir ákveðnu kerfi þannig að þær fari fram í réttu hlutfalli við fjölda hvala á hverju svæði. Það ætti einnig að draga úr hugsanlegum áhrifum veiðanna á hvalaskoðun. Hann sagðist enn fremur skilja að tillögurnar myndu þýða umtalsverða skerðingu fyrir hvalveiðimenn.

Grafík: Tillaga að hvalaskoðunarsvæðum, Fréttablaðið.

Birt:
2. apríl 2009
Höfundur:
jse
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
jse „Hart deilt við Hafró um skoðunarsvæði“, Náttúran.is: 2. apríl 2009 URL: http://nature.is/d/2009/04/02/hart-deilt-vio-hafro-um-skoounarsvaeoi/ [Skoðað:4. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: