Leiðsögumenn eru hornreka stétt í þessu landi þrátt fyrir hið gríðarlega mikilvæga starf sem þeir inna af hendi í landkynningarmálum. Það er alveg sama hversu miklum peningum er eytt í landkynningu ef fólkið sem tekur á móti ferðamönnunum stendur ekki undir væntingum. Fagmenntaðir leiðsögumenn eru sérfræðingar í tungumálum, málefnum tengdum náttúru og samfélagi og í mannlegum samskiptum. Leiðsögumenn eru enn að bíða eftir þeirri viðurkenningu sem felst í löggildingu starfsins eða lögverndun starfsheitisins.

Inspired by Iceland

Markaðsherferðin Inspired by Iceland sem ráðist var í strax eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 og Inspired by Íslander 2012 hafa birst á netinu. Herferðirnar ganga út á að sýna hversu gestrisnir Íslendingar eru og það hversu reiðubúnir þeir eru að gera hitt og þetta ókeypis fyrir erlenda ferðamenn. Það er umhugsunarefni til hverra er verið að höfða og hvort Íslendingar almennt standi undir þeim væntingum sem markhópnum er gefið í skyn að staðið verði undir.

Innskotssvæði á Íslandi

Nuboland, eða Chinatown á Grímsstöðum á Fjöllum, er athygliverð tilraun til að byggja upp innskotssvæði (e. tourism enclave) fyrir kínverska ferðamenn á Íslandi. Ferðamálafræðingar hafa lýst áhrifum innskotssvæða á efnahag og samfélög, sérstaklega í þróunarlöndum þar sem þau er einkum að finna. Helstu rök með slíkri uppbyggingu eru erlend fjárfesting, atvinnusköpun og í tilfelli Íslands að ná til asíumarkaðar. Helstu rök gegn slíkri uppbyggingu eru leki, þ.e. litlir peningar verða eftir í samfélaginu, og neikvæð umhverfisáhrif. Að ónefndum samsæriskenningum.

Erfitt að manna stöður

Nefnt hefur verið að fyrirhugað lúxushótel verði með 300 herbergi, golfvöll og hestabúgarð. Vegna þess að það er fjarri byggðakjörnum þarf starfsfólkið að koma annarsstaðar að, t.d. Akureyri, Húsavík eða Beijing. Hótel- og gistihúsaeigendur á ekki afskekktari stöðum en Kirkjubæjarklaustri og Skaftafelli hafa lent í vandræðum með að manna stöður og hafa þurfa að flytja inn erlent starfsfólk á sumrin og útvega því fæði og húsnæði. Lúxushótel af þessari stærðargráðu eins og rætt hefur verið um á Grímsstöðum þarf ábyggilega yfir 200 starfsmenn. Með sumum fylgja fjölskyldur og þá er líklegt að megi reikna með 300 manns eða svipuðum íbúafjölda og býr í Vík í Mýrdal. Þar um slóðir, eins og annarsstaðar á landinu, dregur ferðaþjónustan að sér erlent vinnuafl.

́Ónákvæm mynd af landi og þjóð

Þótt talað sé um að ráða Íslendinga þá eru því miður alltof fáir innfæddir Íslendingar sem tala kínversku. Aðeins tveir kínversku- mælandi leiðsögumenn eru á lista Félags leiðsögumanna. Nýbúar frá Kína hafa notið góðs af fjölgun ferðamanna frá heimalandinu undanfarin ár. Flestir búa á höfuðborgarsvæðinu og það er alls óvíst að þeir vilji flytja úr höfuðborginni til Gríms- staða á Fjöllum. Ferðamálafræðingar hafa bent á að ferðamenn sem dvelja á innskotssvæðum fái ónákvæma mynd af landi og þjóð.

Hákarl í gullfiskabúri

Nýtt lúxushótel á Grímsstöðum og samkeppni um ferðamenn á svæðinu kemur kaupendum væntanlega til góða. En hvað með þá sem hafa af vanefnum en eljusemi byggt upp ferðaþjónustu í Þingeyjarsýslum í áratugi? Aðila með viðlíkt fjármagn og gefið hefur verið í skyn í fjölmiðlaumræðu má í samanburði við fjárstyrk heimamanna líkja við að hákarl sé við það að stinga sér til sunds í gullfiskabúri. Vissulega skortir gistirými við Mývatn yfir sumarmánuðina en það er ófyrirséð hvernig samkeppnin um ferðamenn og hugsanlega starfsfólk kemur til með að þróast, t.d. yfir vetrarmánuðina.

Álögur á ferðamenn

Bráðnauðsynlegt er að verja fjármunum í verndun og uppbyggingu ferðamannastaða víðsvegar um landið. Á Geysissvæðinu er hverahrúðrið fótumtroðið og litlaust. Þess vegna er fólk duglegt að brenna sig þar. Leiðsögumenn hafa ítrekað bent á þessi vandamál, m.a. í blaðagreinum.

Siv Friðleifsdóttir, þá umhverfisráðherra, tók vel í að innheimta gjald af ferðamönnum við vinsæla ferðamannastaði með það fyrir augum að vernda svæðið og ferðamennina frá hættum. Það hlaut ekki hljómgrunn sem betur fer. Össur Skarphéðinsson, þá iðnaðarráðherra og ráðherra ferðamála, boðaði nýjan skatt á ferðamálaráðstefnu fyrir þremur árum. Lög um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða voru samþykkt sl. sumar en hugmyndin með lögunum er að innleiða nýjan skatt á notendur til að fjármagna nauðsynlegar úrbætur á ferðamanna- stöðum.

Meingallaður skattur

Tekjur framkvæmdasjóðsins áttu upphaflega að koma úr tveimur áttum, annarsvegar frá gististöðum og hinsvegar farþegum sem ferðuðust til landsins með flugvél. Í bili hefur verið hætt við að innheimta gjaldið af farþegum á leið til landsins. Gistináttagjaldið svokallaða sem haldið var til streitu er meingallað að sögn samtaka atvinnurekenda í ferðaþjónustu (SAF). Vissulega er það ósanngjarnt fyrir þá sem bjóða uppá gistingu að þurfa einir að bera uppi framkvæmdir á ferðamannastöðum. Og það er ekki heldur sanngjarnt gagnvart þeim sem greiða gjaldið að sumir sem bjóða uppá gistingu sleppi við að greiða gjaldið vegna þess að gistingin er hvergi á skrá.

Ríkissjóður græðir

Erlendir ferðamenn sem hingað koma eyða miklum peningum og greiða virðisaukaskatt af ýmsum vörum og þjónustu. Starfsfólk í ferðaþjónustu greiðir tekjuskatt. Tekjur af ferðaþjónustu á Íslandi eru verulegar fyrir ríkissjóð. Eitt árið var það reiknað út að eyðsla þeirra sem ferðast um landið væri 155 milljarðar og vinnsluvirði greinarinnar um 37 milljarðar. Þess vegna ætti ekki að standa á ríkissjóði að fjármagna einstaka úrbætur á ferðamannastöðum án þess að skattleggja ferðamenn sérstaklega eins og nú hefur verið gert. Sérstaka athygli vekur að einungis 3/5 hlutar gistináttagjaldsins renna í framkvæmdasjóðinn. Það vekur líka athygli að fjármagni úr sjóðnum skuli úthlutað til ferðamannastaða í eigu opinberra aðila sem voru, og eru væntanlega enn, á fjárlögum hvort sem er. Meginreglan er að peningarnir skulu fara til opinberra aðila, þó er gert ráð fyrir því að vinsælir ferðamannastaðir fái stuðning þar sem nauðsynlegt þykir að bæta öryggi og vernda náttúru.

Þingvellir

Ýmis uppbygging hefur átt sér stað á Þingvöllum undanfarinn áratug. Má þá nefna göngustíginn og trépallinn að Öxarár- fossi og brýrnar yfir Öxará. Við Hakið hefur verið byggður útsýnispallur, gestastofa og salerni, og bílaplanið hefur verið stækkað. En betur má ef duga skal. Hraða þarf fram- kvæmdum í Almannagjá þannig að fólk geti gengið þar niðureftir. Sumir djarfir ferðamenn fara reyndar þrátt fyrir kirfi- legar merkingar um að stígurinn sé lokaður. Eins og leiðsögumenn væntanlega muna þá opnaðist 2011 gjá undir stígnum efst í Almannagjá. Mikil mildi var að kínverski forsetinn sem fékk bílfar þarna árið 2004 skyldi ekki hrapa í gjána. Reyndar var útsýnispallurinn við Hakið einmitt byggður við það tækifæri. Hinsvegar var pallurinn ekki kláraður alveg fyrir en nokkrum árum seinna, erlendum ferðamönnum og leiðsögumönnum til ama.

Gósentíð í köfun

Silfra er einn fallegasti köfunarstaður veraldar enda er útsýnið í kristaltæru Þingvallavatni framúrskarandi. Það sem hófst sem jaðarsport fyrir erlenda ferðamenn er nú orðið svo vinsælt að það myndast örtröð í Silfru nánast uppá hvern dag. Það er skondið að sjá fólk í brunafrosti um hávetur spígspora í þurrbúningnum áður en það dýfir sér ofaní ískalt Þingvallavatn. Bílum er lagt þvers og kruss á veginum og tugir kafara hindra umferð um veginn sem liggur að bílastæðinu þar sem Hótel Valhöll stóð áður en það brann. Ágangurinn í svæðið hefur aukist svo mikið að rætt hefur verið um að takmarka aðgengi að Silfru, eða stjórna umferðinni á einhvern hátt til að allir séu sáttir.

Leiðsögn eða fararstjórn?

Framboð á ferðaþjónustu hefur vaxið gríðarlega undanfarin ár. Nú er til dæmis hægt að fara í hestaferð og Gullhring, köfunarferð og Gullhring, reiðhjólaferð og Gullhring, ísgöngu og suðurströnd svo dæmi séu tekin. Án þess að draga mannkosti þess fólks í efa sem hefur yndi af hestum, köfun, hjólreiðum og ísgöngu þá verður ekki litið framhjá þeirri staðreynd að sumir sem „leiðsegja“ í þessum samsettu ferðum eru alls ekki fagmenntaðir leiðsögumenn.

Leiðsögumaður eða fararstjóri?

Því miður gera fáir greinarmun á starfi leiðsögumanns annarsvegar og fararstjóra hinsvegar. Munurinn liggur í því að leiðsögu- menn hafa lokið sérstöku fagnámi í leiðsögn sem tekur til svæðisins sem hann/hún hyggst leiðsegja um og hefur fengið vottun yfirvalda. Ferðamálastofa vottar menntun leiðsögumanna á Íslandi. Hvorki faglegrar menntunar né vottorðs er krafist af fararstjórum.

Fagleg leiðsögn

Í Bandaríkjunum er algengt að nota orðið guide fyrir hverskonar leiðsögn og farar- stjórn. Í Evrópu er til skilgreining sem er vottuð af Staðlaráði Evrópu (CEN) og talað um „tourist guide“ annarsvegar og „tour manager“ hinsvegar. Eitt afþreyingarfyrirtæki sem býður uppá samsettar ferðir auglýsir þetta á vefsíðu sinni: „Your guide will show you around and tell you some interesting facts and stories about the spouting geysers “Strokkur” and “Geysir” as well as the area.“ Varla er ástæða til að halda að textanum sé viljandi ætlað að villa um fyrir kaupandanum en hann gerir það samt. Flestir kaupendur þjónustunar gera sér einfaldlega ekki grein fyrir muninum á leiðsögn og fararstjórn, fagmenntuðum leiðsögumanni og fararstjóra. Fjölmiðlafólk ruglar þessu líka endalaust saman þótt störfin séu ólík, stundum í sömu málsgrein. Og það allra versta er að sumir sem hafa atvinnu af ferðaþjónustu gera sér ekki heldur grein fyrir muninum. Fagmenntaðir leiðsögumenn verða að vera vakandi fyrir þessu og vera duglegir að koma þessu á framfæri.

Leiðsögunám á villigötum

Upphaf leiðsögunáms á Íslandi má rekja aftur til ársins 1960. Leiðsögunámið í Menntaskólanum í Kópavogi nær aftur til ársins 1976. Nú er svo komið að þrír skólar á þremur ólíkum skólastigum bjóða uppá leiðsögunám. Einn er á háskólastigi, annar á framhaldsskólastigi og sá þriðji er einkaskóli. Óþarfi er að gera upp á milli þessara skóla því að þeir sinna allir hlutverki sínu vel. Hinsvegar má ekki líta framhjá því að engin starfsstétt getur búið við það að fagnám hennar sé í boði á þremur skólastigum. Hvað fyndist fólki um að fara til læknis og vita ekki hvort viðkomandi er með háskólapróf, stúdentspróf eða skírteini úr einkaskóla? Geta kaupendur gengið að gæðunum vísum? Eiga allir að hafa sama kaup? Það sér hver sem vill að fyrir fag- menntaða leiðsögumenn er þetta ótækt ástand.

Löggilding fyrir leiðsögumenn

Það er löngu tímabært að leiðsögumenn fái löggildingu, eða lögverndun starfsheitisins hið minnsta. Á þessu tvennu er eðlismunur. Einhverjum þykir til of mikils ætlast að leiðsögumenn krefjist löggilding- ar sem bannar öðrum en fagmenntuðum leiðsögumönnum að leiðsegja. Hinsvegar ríkir almennur skilningur á því að leiðsögu- menn fái lögverndun starfsheitis. Það mundi þýða að aðeins þeir sem lokið hafa fagnámi megi nota starfsheitið „leiðsögu- maður“. Aðrir sem leiðsegja geta t.d. kal- lað sig fararstjóra. Sambærilegt dæmi þekkjum við úr famhaldsskólunum þar sem þeir einir mega kalla sig kennara sem hafa hlotið til þess menntun og leyfisbréf frá menntamálaráðuneytinu. Þeir sem kenna en hafa ekki leyfisbréf kallast leiðbeinendur.

Fjöldi fagmenntaðra leiðsögumanna

Lausleg samantekt undirritaðs sýnir að um 1.500 einstaklingar hafa lokið eins árs fagnámi í leiðsögn frá árinu 1976. Flest árin útskrifuðust 20-40 nemendur úr einum skóla, en frá hruni hafa allt að 160 manns útskrifast á einu ári frá þremur skólum. Áður var sagt að ekki mætti löggilda leiðsögumenn vegna þess að þeir væru ekki nógu margir til að mæta eftirspurn – þau rök eiga ekki lengur við.

Greinin birtist í Fréttabréfi leiðsögumann.

Ljósmynd: Frá Geysissvæðinu, Árni Tryggvason.

Birt:
10. apríl 2012
Tilvitnun:
Stefán Helgi Valssson „Seljum Ísland hvað sem það kostar“, Náttúran.is: 10. apríl 2012 URL: http://nature.is/d/2012/04/10/seljum-island-hvad-sem-thad-kostar/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: