Mælingar á svifryki efldar vegna eldgossins í Eyjafjöllum
Sex milljónum króna verður varið til kaupa og uppsetningar á sjálfvirkum mæli til að mæla svifryk á áhrifasvæði eldgossins í Eyjafjallajökli. Tillaga Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra þess efnis var samþykkt á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun.
Umhverfisstofnun hefur að undanförnu lagt áherslu á að mæla eftir fremsta megni styrk svifryks á svæðum sem orðið hafa fyrir öskufalli í nágrenni Eyjafjallajökuls. Einnig hefur stofnunin mælt tilteknar gastegundir á áhrifasvæðinu. Búnaður til slíkra mælinga er af skornum skammti hér á landi en stofnunin hefur flutt á svæðið mæli sem stofnunin hefur haft staðsettan á Akureyri og annan mæli sem hún fékk að láni tímabundið hjá Reykjavíkurborg. Umrætt svæði er hins vegar svo stórt að fleiri mæla þarf til að sinna þessari vöktun svo vel sé. Sóttvarnalæknir og Ríkislögreglustjórinn hafa tekið undir með Umhverfisstofnun um mikilvægi þess að vöktun á svifryki verði aukin.
Birt:
Tilvitnun:
Umhverfisráðuneytið „Mælingar á svifryki efldar vegna eldgossins í Eyjafjöllum“, Náttúran.is: 27. apríl 2010 URL: http://nature.is/d/2010/04/27/maelingar-svifryki-efldar-vegna-eldgossins-i-eyjaf/ [Skoðað:22. desember 2024]Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.