Af sjávarfangi eru sölin mest nýtt. Oft eru þau tekin á stórstraumsfjöru kringum höfuðdag og hafa þá haft sumarið til að vaxa. Sölin sveigjast fram og til baka með hverri öldu, föst á rót sinni, en þrífast þó best þar sem brim er nokkuð og þetta sífellda ról þeirra fram og aftur gefur þeim kraft. Þau gefa okkur síðan hlutdeild í þeim styrk og jafnframt friði, sem sveigjanleikinn megnar að veita. Söl eru sögð vera treg til að taka í sig geislunaráhrif en hættara við að draga í sig þungmálma. Fjallagrös þykja aftur á móti vera fljót að taka í sig geislun.

Til að ná sölvum verður að kjaga skreipa kletta út á ystu sker eða nota bát. Hvort tveggja er ævintþr. Best að setja þau í netpoka svo sjórinn leki af þeim. Ekki ber heimildum saman um hvort eigi að þvo sölin eða megi þurrka þau beint. Sölvatínsluhópur minn hallast fremur að því að þvo ekki en það má þó gjarnan skola, ef því verður við komið. Það hjálpar til að hreinsa burt smádýr, skeljabrot og smásteina, sem kunna að hafa leynst innan um. En þetta hrynur af hvort eð er þegar sölin þorna. Þau eru þurrkuð flöt og þeim snúið svo þau þorni jafnt og vel. Ef rigningartíð er og magnið ekki mikið má þurrka þau inni á gólfi á handklæðum, annars úti á akrþldúk eða inni í skemmu. Þegar þau eru hálfþornuð má fara yfir þau og tína burt allan óhroða og greiða úr blöðunum. Þurr eru þau látin undir farg í stamp eða stóra krukku, nota má fjöl og stein eða hellubrot þar ofan á. Þarna þurfa þau að taka sig í nokkrar vikur svo sætan komi fram og þau verði bragðgóð. Sætan er hvít og heitir hneita. Betra er að hafa þau ekki alveg harðþurrkuð, en þó mega þau ekki vera blaut því þá mygla þau. Þarna þarf að finna réttan milliveg. Arný rúður Sæmundsdóttir jurta- og grasalitunarkona hefur aðstoðað mig við nokkrar uppskriftir og saman höfum við bakað þessa gömlu uppskrift frá Tjaldanesi í Dalasýslu.

Hlóðasteiktar sölvakökur með fjallagrösum
1/3 söl, 1/3 rúgmjöl og 1/3 fjallagrös. Svona hljóðar uppskriftin. Við hreinsuðum lúku af grösum, klipptum þau smátt og sömuleiðis lúku af sölvum. Blönduðum 250 g af rúgmjöli saman við grös og söl. Vættum í með bolla af sjóðheitu vatni. Það fer eftir rúgmjölinu hvað mikið vatn það vill. Deigið var hnoðað hratt og því haldið heitu. Gott var að smyrja smjöri á hendurnar meðan við flöttum deigið. Svo var pikkað og steikt á útigrilli á flatri járnpönnu sem var sérsmíðuð fyrir móður mína, þegar farið var að framleiða eldavélahellur með dæld. Það má stinga heitum kökunum í kalt vatn og setja í plastpoka ef þær eiga að vera mjúkar. En mér finnst flatkökur bestar alveg nýjar, heitar og stökkar.

Pönnusteikt söl
Steikið sölin á pönnu í góðri feiti. Þannig minna þau á beikon og eru afbragð með amerískum pönnukökum á sunnudagsmorgn

Úr „Ætigarðinum“  eftir Hildi Hákonardóttur. Bókin er fáanleg hér á Náttúrumarkaðinum.

Ljósmynd: Sjávargróðursuppskera á eldhúsborði Hildar Hákonardóttur, söl í hvítum pappadisk í miðið, ljósm. Guðrún A. Tryggvadóttir.

Birt:
27. september 2013
Tilvitnun:
Hildur Hákonardóttir „Söl“, Náttúran.is: 27. september 2013 URL: http://nature.is/d/2007/11/09/sl/ [Skoðað:21. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 9. nóvember 2007
breytt: 14. mars 2014

Skilaboð: