Í morgun var Orkuskólinn REYST settur í fyrsta sinn. Skólinn er samstarfsverkefni Orkuveitu Reykjavíkur, Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík og nú eru 14 meistaraprófsnemendur að setjast á skólabekk í höfuðstöðvum Orkuveitunnar á Bæjarhálsi 1. Öll kennsla í REYST fer fram á ensku og tekur námið tvö ár.
Nemendurnir eru frá átta löndum og voru þeir viðstaddir skólasetninguna í morgun. Margir þeirra eru með háskólagráður í náttúruvísindum og verkfræði en athygli vekur hve margir af Íslendingunum sjö, sem eru að hefja nám, eru með háskólagráðu í viðskiptum.

Aukin eftirspurn eftir sérfræðingum
Kjartan Magnússon, stjórnarformaður OR, setti skólann formlega. Kristín Ingólfsdóttir og Svafa Grönfeldt, rektorar samstarfsháskólanna tveggja, flutt ávörp við skólasetninguna sem og Hjörleifur B. Kvaran, forstjóri Orkuveitunnar. Í ávarpi sínu minnti Hjörleifur á sérstöðu Íslendinga hvað varðar hlut endurnýjanlegrar orku í orkuframleiðslunni. Aukin ásókn í nýtingu slíkra orkugjafa leiddi hinsvegar til skorts á tæknimenntuðu fólki á þessu sviði. Og Hjörleifur sagði:
„Við þessar aðstæður verða þeir sem búa yfir þekkingu á þessu sviði að snúa bökum saman til að efla bæði kennslu og rannsóknir. Með því að mynda bandalag með öflugustu háskólum Íslands um kennslu og rannsóknir á sviði endurnýjanlegra orkugjafa vill Orkuveitan sýna samfélagslega ábyrgð bæði gagnvart nærumhveri sínu og sem þegn í alþjóðasamfélaginu. Jafnframt teljum við að með því að vera miðstöð fjölbreyttra rannsókna á sviði endurnýjanlegrar orku skapi Orkuveitan sér ný tækifæri til enn meiri þekkingaruppbyggingar um nýtingu sjálfbærra orkugjafa.“

Bakgrunnur REYST
Grunnurinn að Reykjavik Energy Graduate School of Sustainable Systems – REYST – var lagður í apríl 2007 þegar Orkuveita Reykjavikur, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík undirrituðu samkomulag um stofnun alþjóðlegs skóla um sjálfbæra orku. Starfsvettvangur REYST er rannsóknir og rannsóknatengt framhaldsnám og bera Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík faglega ábyrgð á náminu. Skólinn er ætlaður fólki með BS gráðu í verkfræði og öðrum raunvísindum og viðskiptum sem hyggur á framhaldsnám á sviði sjálfbærrar orku. Skólinn leggur áherslu á umhverfisvernd og sjálfbæra nýtingu orkulinda á alþjóðavísu og mun útskrifa sérfræðinga sem munu verða leiðandi í stjórnun, hönnun og rannsóknum um nýtingu sjálfbærrar orku. Einstæð reynsla og þekking samstarfsaðilanna er hinn trausti grunnur sem skólinn byggir á.

Orkuveita Reykjavíkur
Orkuveita Reykjavíkur er hátæknifyrirtæki sem sér rúmlega helmingi þjóðarinnar fyrir húshitun, drykkjarvatni, rafmagni og fráveitu. Hún byggir starf sitt á vísindalegri þekkingu og mikilli reynslu við úrlausn verkefna á sviði verkfræði, jarðfræði, verkefnisstjórnun og umfangsmikilli tækniþekkingu við öflun og dreifingu á orku og vatni á þann hátt að telst til eðlilegra lífsgæða. Orkuveitan er leiðandi jarðhitafyrirtæki á heimsvísu. Síðustu áratugina hefur OR verið í fararbroddi við að setja á stofn ný jarðhitaorkuver og fyrirtækið hefur áratugareynslu við að nýta jarðhita bæði til húshitunar og raforkuframleiðslu.

Háskóli Íslands
Háskóli Íslands er elsti, stærsti og fjölbreyttasti háskóli á Íslandi, stofnaður 1911. Þar er boðið fjölþætt grunnnám fyrir stúdenta að loknu stúdentsprófi og framhaldsnám til meistara- og doktorsprófs. Háskóli Íslands er öflugur rannsóknaháskóli á alþjóðlega vísu sem á í margvíslegu samstarfi við innlenda og erlenda háskóla og rannsóknastofnanir. Við háskólann er starfrækt 51 rannsóknastofnun.

Háskólinn í Reykjavík
Háskólinn í Reykjavík hefur það verkefni að skapa og miðla þekkingu til að auka samkeppnishæfni einstaklinga, fyrirtækja og samfélagsins í heild og um leið að bæta lífsgæði nemenda sinna og starfsfólks. Markmiðið er að HR verði miðstöð alþjóðlegs rannsóknasamstarfs í Evrópu og vestanhafs. HR brúar bilið á milli viðskipta og tækni, rökhugsunar og sköpunargleði með námi í fimm deildum: tækni- og verkfræðideild, kennslufræði- og lþðheilsudeild, viðskiptadeild, tölvunarfræðideild og lagadeild.

Myndin er frá skólasetningunni í morgun. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir.

Birt:
5. ágúst 2008
Tilvitnun:
Orkuveita Reykjavíkur „Orkuskólinn Reyst settur í fyrsta sinn“, Náttúran.is: 5. ágúst 2008 URL: http://nature.is/d/2008/08/05/orkuskolinn-reyst-settur-i-fyrsta-sinn/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: