Á lokadegi Evrópskrar samgönguviku eru íbúar í 2000 borgum hvattir til að hvíla bílinn og nýta aðra samgöngumáta eins og strætó, reiðhjól og göngur. „Við höfum ekki tekið þátt í bíllausa deginum í nokkur ár en ákváðum að hefja þátttöku aftur í dag,“ segir Pálmi Freyr Randversson verkefnastjóri Samgönguviku fyrir Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkurborgar. „Bíllausi dagurinn fer hægt af stað en við vonumst til að þátttakan verði vaxandi á næstu árum,“ segir hann. 2.600 færri bifreiðar óku Ártúnsbrekku og Sæbraut milli 7 og 9 í morgun miðað við mánudaginn 15. september og er það marktækur munur.

Pálmi segist vera ánægður með Samgönguviku 2008, bæði hafa samgöngumál verið ofarlega í umræðunni og einnig hafi nýtt samgöngumannvirki verið opnað: forgangsakrein fyrir almenningssamgöngur.

Laugardaginn 20. september mættust hjólalestir í Ráðhúsi Reykjavíkur á hjóladegi fjölskyldunnar. Fjölskyldur komu hjólandi frá Garðabæ, Hafnarfirði, Kópavogi, Mosfellsbæ og ýmsum áfangstöðum í Reykjavík. Einnig var Tjarnarspretturinn haldinn en það er hjólreiðakeppni Hjólreiðafélags Reykjavíkur. Tjarnarsprettsmeistari kvenna var Bryndís Þorsteinsdóttir en Hafsteinn Ægir Geirsson sigraði í karlaflokki. Sjá nánar á vef Reykjavíkurborgar.

Grafík: Erllent merki um bíllausa daginn en ekki er vitað um að sérstakt merki hafi verið hannað fyrir daginn hérlendis.

Birt:
22. september 2008
Tilvitnun:
Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkur „Bíllausi dagurinn“, Náttúran.is: 22. september 2008 URL: http://nature.is/d/2008/09/22/billausi-dagurinn/ [Skoðað:22. desember 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: